Hoppa yfir valmynd
1. mars 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Erfðabreytt matvæli- áhrif og áhætta ræktunar og neyslu

Ávarp umhverfisráðherra

Erfðabreytt matvæli- áhrif og áhætta ræktunar og neyslu

Málþing á Grand Hóteli 1. mars 2005

Góðir gestir.

Á síðustu áratugum hafa erfðavísindi tekið stórstígum framförum og þróun erfðatækninnar verið ótrúlega hröð. Með aðferðum hennar er unnt að færa erfðaefni milli óskyldra tegunda. Hægt er að flytja erfðaefni úr bakteríu inn í frumur hveitiplantna eða úr fiski í frumur kartöfluplantna og þannig fæst erfðabreytt hveiti og erfðabreyttar kartöflur. Mikilvægt er að þessi öfluga tækni verði notuð til góðs. Eldislax með súkkulaðibragði þætti líklega ekki mjög spennandi uppgötvun, en eldislax sem hefur þann eiginleika að stækka tífalt á við hefðbundinn eldislax á jafnlöngum tíma er hins vegar bylting. Erfðabreyttar nytjaplöntur eru nú ræktaðar í stórum stíl á mörgum svæðum í heiminum og úr þeim eru framleidd matvæli.

Þegar svo öflugri tækni er beitt til að breyta lífverum sem vaxa og dafna úti í náttúrunni þarf að fara varlega og reyna samkvæmt nýjustu og bestu vitneskju að sjá fyrir þau áhrif sem þær kunna að hafa á náttúruna. Alþingi setti lög um erfðabreyttar lífverur árið 1996. Markmið þeirra er að vernda náttúru landsins, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera og tryggja að framleiðsla og notkun þeirra fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt í samræmi við grundvallarregluna um sjálfbæra þróun.

Jafnframt eru í gildi reglugerðir um erfðabreyttar lífverur sem byggðar eru á tilskipunum Evrópusambandsins þar sem varúðarsjónarmið eru í hávegum höfð.

Yfirskrift ráðstefnunnar í dag er "erfðabreytt matvæli". Erfðabreytt matvæli hafa vakið vonir um að hægt verði að fylla matarkistur heimsins og hafa áhrif á efnahagskerfi veraldarinnar þannig að hægt sé að draga úr þeirri neyð sem hungur og örbirgð eru. Á sama tíma þarf að fara með gát til þess að áhrif ræktunar þeirra og framleiðslu hafi ekki óæskileg og óafturkræf áhrif á heilsu fólks eða vistkerfi jarðarinnar. Í nágrannaríkjum okkar hafa verið settar sérstakar reglur um matvæli þar sem gerð er sú krafa að þau hafi ekki skaðleg áhrif á neytendur og séu merkt þannig að neytendur fái upplýsingar um hvernig þau voru framleidd. Enn sem komið er hafa ekki verið settar sérstakar reglur hér á landi um erfðabreytt matvæli. Nú er vinna við aðlögunartexta langt komin sem gerir EFTA ríkjunum kleift að taka nýjar reglur Evrópusambandsins um erfðabreytt matvæli og fóður inn í samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Búast má við að innan skamms gildi hér sömu reglur og í öðrum Evrópuríkjum.

Á undanförnum árum hafa ýmsir reynt að efna til almennrar umræðu um erfðabreyttar lífverur og erfðabreytt matvæli hér á landi. Umræðan hefur þó aldrei náð sambærilegu flugi og víða annars staðar þar sem hún hefur oft verið heit og óvægin. En erfðabreytingar á lífverum eiga sér stað hér á landi eins og annars staðar og við þurfum faglega og fordómalausa umræðu um alla þætti þessa máls. Ég fagna því þessu málþingi sem haldið er hér í dag og því kynningarátaki sem boðað er af hálfu þeirra sem að því standa. Ég vona að það verði upphafið að yfirvegaðri og upplýstri umræðu þar sem kostir og gallar erfðabreytinga á lífverum verða ræddir á fordómalausan hátt.

Ég segi málþing um erfðabreytt matvæli sett.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum