Hoppa yfir valmynd
1. mars 2005 Matvælaráðuneytið

Stórefling samnorrænna rannsókna í sjávarútvegi

Stórefling samnorrænna rannsókna í sjávarútvegi

Á formennskuári Íslands 2004 í norrænu ráðherranefndinni (NMR) var á sviði sjávarútvegsins beitt sér fyrir ýmsum framfaramálum. Eitt þeirra var að efla menntun ungra vísindamanna á ýmsum sviðum sjávarútvegs og hafrannsókna. Sú hugmynd var sett fram að Norðurlönd tækju höndum saman um að reka saman samstarfsvettvang á háskólastigi, þannig að sérþekking sem hvert þessara landa býr yfir nýtist sem best fyrir nemendur þeirra allra. Samþykkt var í norrænu embættismannanefndinni um sjávarútvegsmál (NEF) að leggja 1 milljón danskra króna á ári til þessa næstu fimm árin og var norrænu vinnunefndinni um sjávarútvegsrannsóknir (NAF) falin framkvæmd málsins, jafnframt sem fyrir lá að norrænir samstarfsaðilar um vísindarannsóknir (Nordforsk) gerðu slíkt hið sama. Þannig hefur þessi vettvangur væntanlega úr að spila u.þ.b. eitt hundrað milljónum íslenskra króna á fimm ára tímabili.

 

Hin nýja norræna sjávarútvegsakademía, Nordisk Marin Akademi (NMA), tók formlega til starfa við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn í gær; mánudaginn 28.febrúar 2005. Samstarfsráðherrar Norðurlanda voru viðstaddir opnun háskólans.

 

Höfuðviðfangsefni NMA verður að stuðla að auknu framboði námskeiða á ýmsum sviðum sjávarútvegs fyrir unga vísindamenn í doktors- eða meistaranámi. Einnig mun hann að bjóða símenntun fyrir sérfræðinga og fræðslu fyrir fjölmiðlafólk. Ekki er ætlunin að NMA haldi námskeið sjálfur, heldur veitir hann styrki til þeirra sem vilja skipuleggja og halda slík námskeið. Skrifstofa NMA verður við háskólann í Bergen, en öll önnur starfsemi skólans verður dreifð og námskeið haldin þar sem best hentar hverju sinni. Öll fyrirtæki og stofnanir á Norðurlöndum, sem stunda rannsóknir og kennslu tengda sjávarútvegi, geta tekið þátt í NMA. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu NMA, http://www.bio.uib.no/nma.

Norðurlöndin  eiga öll fulltrúa í stjórn skólans, en formaður stjórnar er dr. Guðrún Pétursdóttir forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar H.Í.

 

Norðurlönd eru í fararbroddi í sjávarútvegi, bæði hvað varðar auðlindastjórn, veiðar, vinnslu og markaðssetningu á lifandi auðlindum hafsins. Það er því fagnaðarefni og  merkur áfangi að þau skuli nú taka höndum saman um að opna ungum vísindamönnum ný tækifæri til að  hljóta bestu menntun sem Norðurlönd hafa upp á að bjóða.  Þetta mun ekki aðeins bera ávöxt í bættri menntun, heldur og í auknum kynnum og samstarfi meðal norrænna vísindamanna.  Sjávarútvegsráðuneytið fagnar þessum áfanga og hvetur íslenkar rannsókna- og menntastofnanir til að taka virkan þátt í starfi NMA.

 

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 1. mars 2005.

 

 

 

 

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum