Hoppa yfir valmynd
3. mars 2005 Matvælaráðuneytið

Evrópsk skýrsla um eignarhald kvenna í atvinnurekstri

Fréttatilkynning

Evrópsk skýrsla um eignarhald kvenna í atvinnurekstri

Um 20% íslenskra fyrirtækja rekin af konum

Þrátt fyrir að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi sé með því hæsta sem þekkist í Evrópu eru einungis 20% fyrirtækja hér á landi rekin af konum og eru þau flest innan verslunar og þjónustu. Þróun síðustu ára bendir ekki til að þetta hlutfall sé að breytast.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem í dag var birt um eignarhald og stöðu kvenna í íslensku atvinnulífi. Samskonar úttekt kemur út um þessar mundir í fjórum öðrum Evrópulöndum, Noregi, Svíþjóð, Grikklandi og Lettlandi. Í þeim kemur fram að 25% fyrirtækja í Svíþjóð og Noregi eru rekin af konum og 14% fyrirtækja í Grikklandi. Ekki eru til tölur um fjölda fyrirtækja í Lettlandi sem rekin eru af konum. Til samanburðar má hins vegar geta þess að í Bandaríkjunum reka konur 38% fyrirtækja og 36% fyrirtækja í Finnlandi eru rekin af konum.

Skýrslurnar eru afrakstur Evrópuverkefnisins „Konur og eignarhald í viðskiptum og landbúnaði“ sem unnið er innan rammaáætlunar Evrópusambandsins um jafnrétti kynjanna. Íslenska skýrslan er unnin af starfshópi á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Byggðastofnunar. Annars vegar byggir íslenska skýrslan á úttektum og greiningum á þeim könnunum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum um atvinnulífið og hlut kvenna í því. Hins vegar byggir hún á ítarlegum viðtölum við hóp kvenna í atvinnulífinu.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að konur í atvinnulífinu telja að atvinnuráðgjöf og bankakerfið séu frekar sniðin að þörfum hefðbundinna karlagreina og að gjarnan sé litið á fyrirtæki kvenna sem tómstundaiðju fremur en alvöru fyrirtæki. Þá var lögð áhersla á að skapa þurfi vettvang sem tengir saman fjárfesta og konur með góðar viðskiptahugmyndir. Jafnframt kemur fram að mikilvægt er að til staðar sé aðstoð og fagleg ráðgjöf t.d. um gerð rekstrar- og viðskiptaáætlana hjá ráðgjöfum sem sinna konum og þeirra fyrirtækjum sérstaklega. Þá töldu konur sem stunda atvinnurekstur í landbúnaði sig ekki hafa fengið viðunandi ráðgjöf né stuðning frá samtökum bænda, en meirihluta þeirra sem þar eru í forsvari eru einmitt karlar.

Tillögur

Í skýrslunni eru settar fram ýmsar tillögur sem miða að því að eyða þeim hindrunum sem konur sem tóku þátt í viðtölum og spurningakönnun töldu vera í umhverfinu. Meðal annars eru settar fram eftirfarandi tillögur:

Að kannað verði hvort innra skipulag og starfshættir stofnana sem vinna að stuðningi við atvinnulífið þarfnist endurskipulagningar sem miði að því að laða að konur sem viðskiptavini;
að unnið verði að því að fjölga konum í hópi æðstu stjórnenda í viðskiptalífinu; að kynjahlutfallið í nefndum og stjórnum á vegum opinberra aðila verði jafnað; að menntun og ráðgjöf sem miðar að því að fjölga frumkvöðlaverkefnum og auka atvinnusköpun kvenna verði efld.

Reykjavík, 2. mars 2005.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum