Hoppa yfir valmynd
4. mars 2005 Dómsmálaráðuneytið

Endurnýjun skipa og flugvéla Landhelgisgæslu Íslands samþykkt í ríkisstjórn

Fréttatilkynning
Nr. 8/2005

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um endurnýjun skipa og flugvéla Landhelgisgæslu Íslands. Í tillögunni felst að fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra verður falið að gera tillögur um kaup eða leigu á fjölnota varðskipi og eftirlitsflugvél, samningu útboðsgagna og undirbúning málsins að öðru leyti fyrir lokaákvörðun ríkisstjórnar.

Í stefnuræðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra við upphaf þessa kjörtímabils sagði, að nauðsynlegt væri að laga starf Landhelgisgæslu Íslands að nýjum kröfum, ráðast í smíði nýs varðskips og gera áætlun um endurnýjun á flugflota hennar.

Landhelgisgæslan hefur að undanförnu farið yfir þarfir vegna skipa og flugvéla og komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé skynsamlegt að ráðast í sérsmíði á stóru varðskipi. Þá telur landhelgisgæslan brýnt að ný flugvél komi í stað nærri 30 ára Fokkervélar, en hún missir flughæfi við lok næsta árs.

Kröfur til varðskips eru þær helstar, að mati landhelgisgæslunnar, að það geti sinnt eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga, mengunarvörnum, afgreitt eldsneyti til björgunarþyrlna á flugi og brugðist við í þágu almannavarna hvar sem er á landinu. Skipið verður einnig að geta stutt við viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn, nýst til samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu til varnar smygli á fólki og fíkniefnum og sinnt björgunarstörfum hverskonar. Í björgunarhlutverkinu felst að draga skip og báta og við framkvæmd þess þarf að miða við, að umferð stórra flutningaskipa stóraukist um efnahagslögsöguna og við strendur landsins á næstu árum.

Flugvél landhelgisgæslunnar þarf að búa yfir nútíma greiningar- og samskiptatækni og hafa nægjanlegt flugþol til að sinna ofangreindu eftirliti í stórri efnahagslögsögu, þar sem m.a. þarf að fylgjast með ferðum skipa, mengun og hafís. Þá þarf hún þol til að taka þátt í björgunar- og leitaraðgerðum og geta sinnt vettvangsstjórn og sjúkraflugi. Flugvélin þarf einnig að geta flogið utan vegna alþjóðlegra björgunarstarfa, friðargæslu og mannúðarmála. Flugvélin kann einnig að verða nýtt til flutnings á farþegum í boði hins opinbera.

Landhelgisgæslan telur nauðsynlegt að leita tilboða í kaup eða leigu á varðskipi og flugvél. Könnun gæslunnar hefur leitt í ljós, að nú er unnt að kaupa eða leigja varðskip, til tíu ára, sem fullnægir ofangreindum kröfum, fyrir u.þ.b. 1,7 – 2,0 milljarða íslenskra króna. Þá er núna unnt að kaupa eða leigja flugvél með búnaði sem uppfyllir ofangreind skilyrði fyrir u.þ.b. 1,8 milljarða króna. Séu tilboð nýtt núna telur landhelgisgæslan, að afhending á skipi og flugvél verði ekki fyrr en eftir 18 til 30 mánuði.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að undirbúa sérsmíði stórs varðskips fyrir landhelgisgæsluna og hefur málið verið rætt oft í ríkisstjórn. Síðasta kostnaðarmat vegna slíks sérsmíðað skips gerir ráð fyrir því, að það kynni að kosta allt að fjórum milljörðum króna.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur lagt mat á þær tillögur, sem nú liggja fyrir frá Landhelgisgæslu Íslands um kaup eða leigu á nýju varðskipi og nýrri flugvél fyrir allt að fjórum milljörðum króna. Niðurstaða ráðuneytisins er sú, að velja beri þann kost, sem er í senn hagkvæmari og ódýrari auk þess að uppfylla allar kröfur landhelgisgæslunnar.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið telur brýnt, að ákvörðun um endurnýjun skipa og flugvéla landhelgisgæslunnar sé tekin og síðan ráðist í framkvæmd hennar á þann hátt, sem tryggir besta notagildi tækjanna á hagkvæmustu kjörum.

 

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
4. mars 2005

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum