Hoppa yfir valmynd
14. mars 2005 Matvælaráðuneytið

Fundur Sjávarútvegsráðherra heims

Fundur Sjávarútvegsráðherra heims ákveður nýtt átak í að berjast gegn svokölluðum sjóræningjaveiðum.

Sjávarútvegsráðherrar heimsins hafa ákveðið að hefja nýtt alþjóðlegt átak til að berjast gegn ólöglegum veiðum, svokölluðum sjóræningjaveiðum. Þetta var ákveðið á fundi sjávarútvegsráðherra aðildarríkja matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, laugardaginn 12. mars. Fundinn sátu rúmlega 50 ráðherrar, en alls sátu fundinn fulltrúar meira en 120 ríkja heims.  Fundurinn taldi að tími sé komin til að breyta orðum í athafnir en tvö ár eru síðan ályktun um ólöglegar veiðar var samþykkt í fiskinefnd FAO. Átaks væri þörf í að framfylgja þeim samningum og áætlunum um sjálfbæra nýtingu sem gerðar hafa verið undanfarna áratugi.

Í ályktun fundarins er meðal annars hvatt til þess að  ríki sem ekki hafa fullgilt  hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, samning FAO um framfylgd frá 1993 og  úthafsveiðisamninginn frá 1995, geri það. Jafnframt eru fánaríki brýnd  til að gefa svæðisbundnum fiskveiðistofnunum nákvæmmar upplýsingar um veiðar skipa sinna.  Þá er hvatt til stóraukinnar alþjóðlegrar samvinnu varðandi eftirlit með veiðum, þar með talið um að koma upp gervihnattaeftirliti.

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra sat fundinn. Hann tók undir það að  styrkja þyrfti starf svæðisbundinna stjórnunarstofnanna, m.a. varðandi upplýsingagjöf og eftirlit. Þá lagði hann áherslu á að ríki stæðu við skuldbindingar sínar sem fánaríki og hafnríki, og tryggðu að skip fylgi reglum. Hann minnti einnig á að á alþjóðlegum vettvangi væri nú þegar búið að gera margar mikilvægar samþykktir. Það sem mestu skipti nú væri að koma þessum skuldbindingum í almenna framkvæmd. Þau tæki sem þyrfti væru til staðar og ríki heims yrðu að starfa saman að því að nýta þau gegn ólöglegum fiskveiðum.

Áhrif flóðbylgjunnar miklu í Indlandshafi á annan jóladag var einnig til umræðu á fundi ráðherranna. Rætt var hvernig ætti að aðstoða ríkin í enduruppbyggingu sjávarútvegs í ríkjunum sem verst urðu út.  Samstaða var um að aðstoðin ætti að taka til allra þátta; að hjálpa áfram við að endurreisa fiskveiðar og –vinnslu til að tryggja framboð á mat. Þá ætti aðstoðin einnig að taka til greiningar, rannsókna, mati á fiskistofnum, og skilvirkrar fiskveiðistjórnunar og þannig stuðla að sjálfbærri þróun í sjávarútvegi ríkjanna. Lögð var áhersla að fiskideild FAO hefði þar grundvallar hlutverki að gegna.

Sjávarútvegsráðuneytið
14. mars 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum