Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 27. júní 2005

Fundur í mannanafnanefnd haldinn mánudaginn 27. júní 2005. Í fundarstörfum tóku þátt Aðalheiður Jóhannsdóttir (AJ), Guðrún Kvaran (GK) og Haraldur Bernharðsson (HB).

 

 

Eftirfarandi mál voru afgreidd:

 

1.

            „Ár 2005, mánudaginn 27. júní er fundur haldinn í mannanafnanefnd.

 

 

Mál nr.   57/2005

 

Eiginnafn: Klementína (kvk)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Í skriflegri beiðni er óskað eftir millinafninu Klementína en eftir símtal við xx hinn 22. júní sl. er ljóst að óskað er eftir eiginnafninu Klementína. Eiginnafnið Klementína tekur eignarfallsendingu (Klementínu) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Klementína er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.

  

Mál nr. 58/2005

 

Eiginnafn: Þoka (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Eiginnafnið Þoka tekur eignarfallsendingu (Þoku) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Þoka er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

  

Mál nr. 59/2005

 

Eiginnafn: Annalísa, ef. Önnulísu (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Í erindi yðar er vísað til máls nr. 45/1998 þar sem mannanafnanefnd hafnaði nafn­inu Annalísa og enn fremur til álits umboðsmanns Alþingis frá 2. maí sl. (mál nr. 4254/2004) um erlend tökunöfn. Í þeim úrskurði umboðsmanns var fjallað um heimild til að taka upp erlendu nafnmyndina Annalísa sem íslenskt eiginnafn. Nefndin hefur með úrskurði sínum frá 16. maí sl. (mál nr. 47/2005) fallist á erlenda tökunafnið Annalísa, þf. Annalísu, þgf. Annalísu, ef. Annalísu og hefur það verið fært á manna­nafna­skrá.

            Í erindi yðar er óskað eftir nafninu Annalísa, þf. Önnulísu, þgf. Önnulísu, ef. Önnulísu og er það því ekki sambærilegt við áðurnefnt mál (nr. 47/2005).

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á manna­nafna­skrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa áunnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt mál­kerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 Í Annalísa, þf./þgf./ef. Önnulísu beygjast bæði Anna og -lísa í öllum föllum og því er um tvö sjálfstæð eiginnöfn að ræða, Anna og Lísa. Það getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Anna og Lísa sem eitt orð. Slíkur ritháttur uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996. Þegar um er að ræða tvö sjálfstæð eiginnöfn, í þessu tilfelli Anna og Lísa, sem beygjast bæði tvö í samræmi við íslenskt beygingarkerfi, er eðlilegur ritháttur þessi: nf. Anna Lísa, þf. Önnu Lísu, þgf. Önnu Lísu, ef. Önnu Lísu.

Þrátt fyrir álit umboðsmanns Alþingis frá 2. maí sl. sem varðaði erlenda tökunafnið Annalísa, þf./þgf./ef. Annalísu eru að mati mannanafnanefndar ekki komnar fram neinar veigamiklar ástæður sem mæla með því að málið verði tekið fyrir að nýju í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er því beiðni yðar um endurupptöku hafnað.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um endurupptöku er hafnað.“

 

Mál nr. 60/2005

 

Eiginnafn: Maí (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Í 1. mgr. 5. gr. laga nr 45/1996 um mannanöfn er kveðið á um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Eiginnafnið Maí tekur ekki íslenska eignarfallsendingu (Maí) og hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli. Það telst því ekki uppfylla ákvæði áðurnefndrar greinar laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Enn fremur hefur samnafnið maí, sem er erlent tökuorð, unnið sér hefð sem karlkynsorð en ekki kvenkynsorð í íslensku máli.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Maí er hafnað.

  

Mál nr. 61/2005

Beiðni um endurupptöku máls nr. 44/2005 frá 3. maí 2005, sbr. mál nr. 56/2005.

 

Eiginnafn: Eleonora (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Þann 3. maí sl. kvað mannanafnanefnd upp úrskurð í máli nr. 44/2005 þar sem óskað var eftir úrskurði nefndarinnar um eiginnafnið Eleonora. Niðurstaða nefndarinnar var sú að hafna nafninu á þeim forsendum að það teldist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hefði rithátturinn áunnið sér hefð í íslensku máli í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004. Þann 30. maí 2005 (mál nr. 56/2005) lagði úrskurðarbeiðandi fram viðbótargögn og óskaði endurupptöku málsins. Að mati nefndarinnar komu þar ekki fram nein veigamikil rök til þess að taka málið upp á ný; beiðni um endurupptöku var því hafnað.

            Með annarri beiðni um endurupptöku eru lögð fram eftirtalin við­bótar­gögn: (1) ljós­rit af vegabréfi konu f. 1911 þar sem skráð er nafnið Eleonora (einnefni), (2) hjóna­vígslubréf sömu konu þar sem nafnið er tvisvar ritað Eleonóra, (3) hjúkr­unar­leyfi á dönsku þar sem nafn sömu konu er ritað Eleonora. Þá er enn fremur lagt fram (4) fæðingar­vottorð konu f. 1983 að nafni Eleonora (síðara nafn af tveimur), (5) fæð­ing­ar­vottorð annarrar konu f. 1983 að nafni Eleonora (einnefni), (6) fæð­ing­ar­vott­orð konu f. 1968 að nafni Eleonora (síðara nafn af tveimur), (7) ljósrit úr prest­þjón­ustu­bók þar sem greint er frá skírn síðastnefndrar Eleonoru og loks (8) fæðingar­vott­orð ann­arrar konu f. 1968 að nafni Eleonora (síðara nafn af tveimur).

            Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er kveðið á um að eiginnafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rit­hætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu. Um leið og rithátturinn Eleonóra, sem reyndar kemur fyrir í framlögðum gögnum í þessu máli, getur talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls verður ekki fallist á að rithátturinn Eleonora samræmist almennum ritreglum íslensk máls, fremur en til dæmis Dora eða Þora í stað Dóra eða Þóra. Til að tryggja sem best jafnræði við mat á hefð styðst manna­nafna­nefnd við meðfylgjandi vinnulagsreglur sem samþykktar voru á fundi nefnd­arinnar 1. júlí 2004 og upplýsingar um fjölda og aldur nafnbera frá Hagstofu Íslands.

            Framlögð gögn í málinu breyta á engan hátt niðurstöðu nefndarinnar og með vísan til rökstuðnings nefndarinnar í máli nr. 44/2005, sbr. mál nr. 56/2005, eru að mati nefndarinnar ekki komin fram nein veigamikil rök til þess að taka málið upp á ný.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um endurupptöku er hafnað.

  

Mál nr.  63/2005

 

Eiginnafn: Jónorri (kk)

                                 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er kveðið á um að eiginnafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu. Það getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Jón og Orri sem eitt orð og fyrir því er heldur ekki hefð. Slíkur ritháttur uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996. Þegar um er að ræða tvö sjálfstæð eiginnöfn, í þessu tilfelli Jón og Orri, sem beygjast bæði tvö í samræmi við íslenskt beyging­ar­kerfi, er eðlilegur ritháttur þessi: nf. Jón Orri, þf. Jón Orra, þgf. Jóni Orra, ef. Jóns Orra.


Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Jónorri er hafnað.

 

Mál nr.  62/2005

 

Eiginnafn: Betsý (kvk)

Millinafn:  Betsý

                                   

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Eiginnafnið Betsý tekur eignarfallsendingu (Betsýjar) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr 45/1996 eru nöfn sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna ekki heimil sem millinöfn; nafnið Betsý getur því ekki verið hvort tveggja í senn eiginnafn og millinafn.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Betsý er tekin til greina og skal það fært á mannanafna­skrá. Beiðni um millinafnið Betsý er hafnað.“

 

Mál nr.  64/2005

 

Eiginnafn: Franzisca (kvk)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Vísað er til máls nr. 121/1997 þar sem mannanafnanefnd hafnaði nafninu Franzisca og óskað endurupptöku Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er kveðið á um að eiginnafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu. Eiginnafnið Franzisca getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki er hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Franzisca uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um endurupptöku er hafnað.“

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn