Hoppa yfir valmynd
3. október 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 16/2005

Fjármálaráðuneytið hefur birt nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2005 til 2007 auk framreikninga fram til ársins 2010. Nýja þjóðhagsspá er að finna í skýrslu fjármálaráðuneytisins Þjóðarbúskapurinn - haustskýrsla 2005 þar sem birtar eru greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2005-2007, meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins.

Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:

  • Uppsveifla efnahagslífsins er í hámarki og spáð er að hagvöxtur haldist áfram mikill í ár og á næsta ári meðan stóriðjuframkvæmdir eru enn umfangsmiklar. Árið 2007 dregur úr hagvextinum vegna samdráttar í framkvæmdum og innlendri eftirspurn.
  • Reiknað er með að hagvöxtur árið 2005 verði áfram mikill, eða 6,0%, en að hægi á hagvexti árið 2006 vegna þess að dregur úr vexti einkaneyslunnar. Spáð er að landsframleiðslan aukist um 4,6% að magni til það ár. Árið 2007, þegar dregur hratt úr stóriðjuframkvæmdum og innlendri eftirspurn, er gert ráð fyrir mun hægari hagvexti, eða 2,5%.
  • Óhjákvæmileg afleiðing umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda og aukinnar einkaneyslu heimilanna er vaxandi viðskiptahalli sem spáð er að nái hámarki í ár og verði 13,3% af landsframleiðslu og rúm 12% á næsta ári. Með auknum álútflutningi og samdrætti í innflutningi mun viðsnúningur í utanríkisviðskiptum einkenna hagvöxtinn árið 2007. Í langtímaspánni er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn dragist hratt saman með minnkandi stóriðjuframkvæmdum og að hann verði um 2,5% af landsframleiðslu árin 2008-2010.
  • Gert er ráð fyrir tímabundnu ójafnvægi í þjóðarbúskapnum á meðan stóriðjuframkvæmdir standa sem hæst. Í kjölfar þeirra má búast við auknum efnahagslegum stöðugleika. Aðhaldsöm efnahagsstjórn heldur aftur af innlendri eftirspurn. Opnun hagkerfisins og alþjóðleg samkeppni takmarka möguleika innlendra aðila til að hækka verð og laun. Sveigjanleg starfsskilyrði hafa leitt til þess að framleiðnivöxtur hefur aukist. Geta hagkerfisins til að vaxa hratt án þess að verð- og launaþróun losni úr læðingi hefur því aukist.
  • Atvinnuleysi hefur minnkað ört og spáð er að það verði tæp 2% af vinnuafli árið 2006. Nokkurrar framleiðsluspennu verður því vart í hagkerfinu en hún mun minnka hratt þegar mestu framkvæmdirnar eru gengnar yfir en þá er spáð að atvinnuleysi aukist á ný.
  • Vísitala neysluverðs hefur hækkað í kjölfar hækkana á fasteignaverði og er áætlað að verðbólga á milli ára verði 3,9% árið 2005. Búist er við að gengi krónunnar og fasteignaverð hafi náð hámarki og að gengi krónunnar lækki árið 2006. Spáð er að verðbólga verði 3,8% það ár og 4% árið 2007. Gert er ráð fyrir að launaliður kjarasamninga taki ekki breytingu við endurskoðun.

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.


Fjármálaráðuneytinu, 3. október 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum