Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 21. desember 2005

Fundargerð

Fundur í mannanafnanefnd haldinn miðvikudaginn 21. desember 2005. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir (KLÍ), Baldur Sigurðsson (BS) og Erlendur Jónsson (ES).

 

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

 

1.

 

Ár 2005, miðvikudaginn 21. desember er fundur haldinn í mannanafnanefnd. Fyrir er tekið  mál nr. 116/2005:

 

Millinafn:                                   Þrastar

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Mál þetta var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 25. nóvember 2005 en afgreiðslu þess frestað til frekari upplýsingaöflunar.

 

Millinafnið Þrastar uppfyllir ekki ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, þar sem nafnið hefur unnið sér hefð sem eiginnafn karls. Nafnið fæst því ekki samþykkt sem almennt millinafn og verður þ.a.l. ekki fært á mannanafnaskrá.

 

Hins vegar uppfyllir millinafnið Þrastar ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, þar sem móðir umsækjanda ber millinafnið Þrastar. Í þessu tilviki er um svokallað sérstakt millinafn að ræða sem verður ekki fært á mannanafnaskrá. Þegar um sérstök millinöfn er að ræða, eins og í þessu tilviki, þarf ekki að bera málið undir manna-nafnanefnd, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1996. Þrátt fyrir það var ákveðið að taka erindið til formlegrar meðferðar í nefndinni.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Þrastar er samþykkt en nafnið skal ekki fært á mannanafnaskrá.

 


 

2.

 

Ár 2005, miðvikudaginn 21. desember er fundur haldinn í mannanafnanefnd. Fyrir er tekið  mál nr. 117/2005:

 

Millinafn:                                   Arnsted

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Skilyrði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt millinafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru neðangreind:

(1)    Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.

(2)    Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karl eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.

(3)    Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

(4)    Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Nafnið Arnsted er ekki að öllu leyti dregið af íslenskum orðstofnum og hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands ber enginn núlifandi maður nafnið Arnsted í þjóðskrá. Millinafnið Arnsted er ekki eiginnafn foreldris umsækjanda í eignarfalli og ekki er vitað til þess að alsystkini, foreldri, afi eða amma beri eða hafi borið nafnið Arnsted sem eiginnafn eða millinafn. Millinafnið Arnsted telst því ekki uppfylla ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, hvorki sem sérstakt né almennt millinafn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Arnsted er hafnað.

 

 

3.

 

Ár 2005, miðvikudaginn 21. desember er fundur haldinn í mannanafnanefnd. Fyrir er tekið  mál nr. 118/2005:

 

Eiginnafn:                                  Súla  (kvk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Í beiðni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er óskað eftir millinafninu Súla en í umsókn um nafnbreytingu, dags. 9. desember 2005, kemur fram að óskað er eftir nafninu Súla sem (annað) eiginnafn í kvenkyni. Mannanafnanefnd afgreiðir því málið í samræmi við óskir umsækjanda.

 

Eiginnafnið Súla tekur íslenska eignarfallsendingu (Súlu) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Súla (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

4.

 

Ár 2005, miðvikudaginn 21. desember er fundur haldinn í mannanafnanefnd. Fyrir er tekið  mál nr. 119/2005:

 

Eiginnafn:                                  Beníta  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Beníta tekur íslenska eignarfallsendingu (Benítu) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Beníta (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

  

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn