Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2006 Matvælaráðuneytið

Ólöglegar og óábyrgar veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg.

Fréttatilkynning

frá sjávarútvegsráðuneyti

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra kynnti á blaðamannafundi í dag hvernig reynt verður að uppræta ólöglegar og óábyrgar veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg.

Samið er um stjórn veiðanna á vettvangi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, og hafa ýmis ríki rétt til að stunda þar löglegar veiðar. Undanfarin ár hafa mörg skip virt þetta að vettugi og gert út undir hentifána. Þau hafa ekki rétt til veiða á þessu svæði og stunda þær í bága við reglur NEAFC, tilmæli Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og hafréttasamning Sameinuðu þjóðanna.

Ætlunin er að stemma frekari stigu við ólöglegum og óábyrgum úthafskarfaveiðum hentifánaskipa á Reykjaneshrygg og m.a. leitast við að koma í veg fyrir viðskipti með afla þeirra.

Það verður m.a. gert með auknu eftirliti á svæðinu. Sérstaklega verður fylgst með umskipun afla á hafi úti og leið hans á markað. Reynt verður að fá þá sem veita skipunum þjónustu til að láta af því og koma þannig í veg fyrir að þau geti landað illa fengnum afla. Haft verður samband við þau fánaríki sem skipin eru skráð í og leitað liðsinnis þeirra til að koma böndum á þessar ólöglegu veiðar. Þegar hefur Belize sýnt viðleitni til slíks samstarfs og jafnframt óskað eftir samstarfsaðild að NEAFC.

Landhelgisgæslan hyggst auka eftirlit sitt á Reykjaneshrygg á þessu ári. Flugferðum yfir svæðið verður fjölgað og af fremsta megni reynt að halda úti varðskipum á því. Ekki hvað síst til að fylgjast með umskipun afla á hafi úti svo koma megi upp um hvar honum er landað síðar meir og hvernig leið hans liggur á markað. Ef svo ber undir þá verða sjómenn á skipum sem heyra undir NEAFC-ríki einnig beðnir að vera vakandi og gefa umskipun afla í flutningaskip sérstakan gaum. Það er erfitt að henda reiður á hvernig úthafskarfi, sem er veiddur með ólöglegum og óábyrgum hætti, kemst á markað en með samstilltu átaki á það að vera unnt.

Fyrsta skrefið er að senda ítarlegt bréf til stjórnvalda og sjávarútvegsfyrirtækja, einkum í Evrópu. Í því er vandinn reifaður, bent á leiðir til lausnar og getið um hvað er í bígerð af hálfu Íslendinga vegna þessa. Til ábendingar fylgir í bréfinu listi með nöfnum nokkurra hentifánaskipa, sem uppvís hafa orðið að ólöglegum og óábyrgum veiðum á NEAFC-svæðinu. Þegar veiðar hefjast síðar á árinu verður gripið til frekari aðgerða sem að ofan er getið.

Sjávarútvegsráðuneytinu 3. janúar 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum