Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þróunarsjóður grunnskóla 2006

Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki til þróunarverkefna í grunnskólum skólaárið 2006-2007.

Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki til þróunarverkefna í grunnskólum skólaárið 2006-2007 á eftirtöldum sviðum:

A. Lýðræði í skólastarfi

Auglýst er eftir umsóknum sem snúast um lýðræði í skólastarfi. Óskað er eftir verkefnum þar sem grunnskólar leggja áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og starfshætti í námi eða skólastarfi almennt í ákveðnum árgöngum eða skólastigum. Koma verður skýrt fram með hvaða hætti nemendur koma að skipulagi skólastarfsins. Óskað er eftir verkefnum þar sem kennarar og annað starfsfólk skóla, nemendur, foreldrar og skilgreindir aðilar í grenndarsamfélaginu vinna sameiginlega að lausn ákveðinna verkefna, annaðhvort á sviði náms og kennslu eða hvað varðar almenna velferð nemenda. Sérstaklega er sóst eftir skólum til að þróa og vinna að heildstæðum áætlunum um lýðræði í skólastarfi.

B. Að læra að læra, vinnubrögð og verklag í námi

Auglýst er eftir umsóknum sem snúast um vinnubrögð og verklag í námi, að læra að læra. Leitað er eftir fjölbreyttum útfærslum þar sem beitt er ýmis konar aðferðum til markvissra vinnubragða og verklags nemenda í námi. Sóst er sérstaklega eftir verkefnum sem leggja áherslu sjálfsvitund nemenda í námi þar sem þeir læra jafnframt tiltekin vinnubrögð sem efla sjálfstæði þeirra í námi. Verkefnin geta tekið til þekktra aðferða á þessu sviði en einnig til frumkvöðla- og nýsköpunarstarfs. Óskað er eftir verkefnum sem varða að minnsta kosti eitt af þremur stigum grunnskólans. Verkefnin geta fallið að einni eða fleiri námsgreinum, bóklegum og/eða verklegum.

C. Jafnréttisfræðsla í skólastarfi

Auglýst er eftir umsóknum sem snúast um jafnréttisfræðslu í grunnskólum í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Einkum er leitað eftir þróun á aðferðum við kennslu sem geta nýst öðrum skólum.

D. Önnur þróunarverkefni

Unnt er að sækja um styrki til hvers kyns þróunarverkefna en svið A, B og C njóta forgangs að öðru jöfnu.

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands annast umsýslu með sjóðnum og veitir nánari upplýsingar, rannsokn.khi.is/throunarsjodur. Reglur um sjóðinn og ýmsar aðrar upplýsingar er einnig þar að finna og á vef menntamálaráðuneytis.

Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi.

Rafræn umsóknareyðublöð og upplýsingar um fylgigögn eru aðgengilegar á vef Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands, rannsokn.khi.is/throunarsjodur

Umsóknir skulu hafa borist Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands fyrir kl. 16:00 mánudaginn 27. febrúar 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum