Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2006 Matvælaráðuneytið

Skýrslan um stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Skýrsla um stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi

 

Í lok október skipaði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, þriggja manna nefnd til að fara yfir stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi og leggja fram tillögur til úrbóta. Í henni segir m.a.:

 Ástand rækjustofna hefur verið lélegt að undanförnu og er rækjuveiði við Ísland nú sú minnsta í 20 ár. Verulegur aflabrestur hefur orðið í úthafsrækjuveiðum og innfjarðarækjuveiði er nú engin. Ómögulegt er að segja til um hvenær breyting verði til batnaðar í veiðum. Forsenda þess að rækjuiðnaður eigi sér framtíð á Íslandi er að hún fari aftur að veiðast á Íslandsmiðum. Ef Íslendingar þurfa eingöngu að treysta á innflutt hráefni mun staða greinarinnar versna enn frekar.

Erfiðleikar eru alls staðar í samkeppnislöndum Íslendinga í kaldsjávarrækju. Í samkeppnislöndunum er aðalvandamálið ekki aflasamdráttur eða slök staða rækjustofna heldur lágt verð, óhagstæð gengisþróun og mikil samkeppni í kjölfar aukins framboðs á rækju.

Á síðustu dögum hefur krónan sveiflast lítið og verið í kringum 104 en erfitt er að segja til um það hvenær hún muni veikjast á ný. Greiningardeildir bankanna gera allar ráð fyrir að gengið veikist þegar líða tekur á árið 2006 og verði gengisvísitalan að jafnaði 108-116 á árinu 2006. Fjármálaráðuneytið reiknar með að gengisvísitalan verði að meðaltali 114. Því má búast við erfiðu rekstrarári framundan.

Í ársbyrjun 2005 voru 11 rækjuverksmiðjur starfandi á Íslandi en í árslok 2005 voru þær 8. Á sama tíma fækkaði störfum í rækjuvinnslu úr 450 í um 220. Þessi fækkun starfa skapar mikil vandamál í smærri byggðarlögum sem treysta á þennan iðnað. Erfitt getur verið fyrir einstaklinga í smærri byggðum að finna önnur störf innan byggðarlagsins og geta þeir því neyðst til að flytja úr byggðarlaginu. Mest eru áhrifin í Súðavík, þar sem 30% starfa í byrjun árs 2005 voru í rækjuiðnaði en í lok ársins voru þau engin vegna lokunar rækjuverksmiðja. Í Stykkishólmi voru um 7% starfa í rækjuiðnaði í byrjun árs 2005 en í lok ársins voru þau engin. Þetta leiðir til þess tekjustofnar viðkomandi sveitarfélags minnka verulega.

Skýrslan í heild sinni

 Sjávarútvegsráðherra hefur þegar brugðist við tveimur megintillögum skýrslunnar með frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi á allra næstu dögum, um breytingar á lögum 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. Lagt er til að gerðar verði tvær breytingar á lögunum af þessu tilefni, sem gildi fyrir yfirstandandi og næstu tvö fiskveiðiár.

 1.      Sú breyting verði gerð á 12. gr. laganna að vannýting á úthlutuðum aflaheimildum í úthafsrækju leiði ekki til þess að skip missi aflahlutdeild sína í úthafsrækju eða öðrum tegundum. Hins vegar nýtist rækjuveiðar til að fullnægja veiðiskyldu gagnvart öðrum tegundum.

2.      Veiðigjald fyrir úthafsrækju verði greitt eftir á miðað við landaðan úthafsrækjuafla í lok fiskveiðiárs næstu þrjú árin, en ekki innheimt í upphafi fiskveiðiárs miðað við úthlutað aflamark. Þar sem 10 þús. tonnum af úthafsrækju hefur verið úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári hefur álagning veiðigjalds fyrir þær aflaheimildir þegar farið fram. Er gert ráð fyrir að sú álagning, sem nemur um 10 m.kr. verði felld niður og endurgreidd og síðan greiði útgerðir í lok fiskveiðiárs veiðigjald miðað við úthafsrækjuafla hvers skips í lok þess.

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 18. janúar 2006

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum