Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2006 Matvælaráðuneytið

Fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða

Fréttatilkynning

frá sjávarútvegsráðuneyti

Fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða

 

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.

 

Þar er m.a. lagt til að sett verði hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild þannig að enginn hafi yfir meiru að ráða en 6% af krókaaflahlutdeild í þorski, 9% krókaaflahlutdeild í ýsu og 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar. Ljóst er að mikil sameining krókaaflahlutdeildar hefur orðið og ástæða þykir til þess að setja þær takmarkanir sem hér er lagt til þannig að krókaaflahlutdeildir dreifist á fleiri fyrirtæki og þar með sjávarbyggðir.

 

Samkvæmt gildandi ákvæði 1. mgr. í 11.gr. a eru settar takmarkanir á samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila í fimm helstu tegundum botnfisks, auk síldar, loðnu og úthafsrækju og miðast hámarkið við 12% í þorski og 35% í karfa en 20% í öðrum tegundum. Þá segir í 3. mgr. 11. gr. að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa megi aldrei nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um heildarafla. Fyrrgreind takmörkun tekur einnig til krókaaflahlutdeildar sbr. 5. mgr. 7. gr. en hér er lagt til að auk þessa verði sétt sérstakt hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Er lagt til að hún verði 6% í þorski, 9% í ýsu og 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirra tegunda sem krókaflahlutdeild er úthlutað í.

 

Ennfremur er lagt til í frumvarpinu að unnt verði með rafrænum hætti að flytja aflamark milli fiskiskipa á einfaldari hátt en nú tíðkast.

 

Þegar hefur verið greint frá þeim breytingum sem lagðar eru til vegna erfiðleika sem uppi eru í veiðum og vinnslu úthafrækju, þ.e. að fella veiðiskyldu úr gildi og að veiðigjald miðist við afla en ekki úthlutaðar aflaheimildir.

 

Frumvarpið í heild sinni

 

 

                                                                                    Sjávarútvegsráðuneytinu 23. janúar 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum