Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skuldir ríkissjóðs

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa lækkað um helming á fimm árum.

Í árslok 2001 námu skuldir ríkissjóðs 40% af VLF en í árslok 2005 um 20%. Á sama tíma hafa erlendar skuldir lækkað um 67%, frá því að vera rúmlega 26% af VLF í árslok 2001 í tæplega 9% um sl. áramót. Heildarskuldir ríkissjóðs námu í árslok 2005 196,5 milljörðum króna, þar af námu erlendar skuldir 85,5 milljörðum króna.

Skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af VLF 2001-2005

Erlendar skuldir hafa verið greiddar niður eftir því sem aðstæður hafa leyft með því að nota andvirði einkavæðingar og greiða afborganir ríkissjóðs. Hlutfall erlendra skulda af heildarskuldum hefur því lækkað jafnt og þétt, frá því að vera rúmlega 66% í árslok 2001 í rúmlega 43% í árslok 2005. Mest var þó lækkunin á árinu 2005. Bæði styrktist krónan á árinu gagnvart erlendum gjaldmiðlum en einnig var um verulegar uppgreiðslur að ræða.

Fjármálaráðuneytið kynnti í upphafi síðasta árs að erlend lán að andvirði 5 milljarðar króna yrðu ekki endurfjármögnuð. Um vorið var sú fjárhæð aukin um rúmlega 6 milljarða króna og um sumarið um 3 milljarða króna til viðbótar. Í september sl. var síðan tilkynnt um aukin kaup gjaldeyris á millibankamarkaði að jafnvirði 10 milljarða króna.

Í september var um helmingur söluandvirðis Símans greiddur í erlendri mynt, að andvirði um 32 milljarðar króna. Ákveðið var að þeim fjármunum yrði að öllu leyti varið til niðurgreiðslu erlendra skulda.

Niðurgreiðsla erlendra skulda á árinu 2005 nam um 48 ma.kr. en að auki átti ríkissjóður að jafnvirði um 9 milljarða króna á innlendum gjaldeyrisreikningum í árslok 2005 sem mun verða nýtt til niðurgreiðslu erlendra skulda á árinu 2006. Erlend lán á gjalddaga 2006 nema að jafnvirði tæplega 20 milljörðum króna og er áætlað að þau verði ekki endurfjármögnuð. Því er gert ráð fyrir að hlutfall erlendra skulda af heildarskuldum ríkissjóðs muni halda áfram að lækka.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum