Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2006 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins

Skýrsla um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Ásta Margrét Ásmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins kynntu í dag nýja skýrslu Rf um niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarafurðum árið 2004. Þetta annað ár vöktunarinnar og líkt og árið áður sýna niðurstöðurnar að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og þeim tíu gerðum af varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri) sem mæld voru í rannsókninni. Svokölluð bendi PCB efni mælast einnig langt undir þeim hámarksgildum sem í gildi eru í viðskiptalöndum okkar. Sama má segja um kvikasilfur, sem mælist í versta falli í magni sem er 1/10 af hámarki sem samþykkt hefur verið í Evrópusambandinu.

Niðurstöður mælinga á fiskimjöli og lýsi sýna að magn aðskotaefna eins og díoxína, PCB efna og varnarefna er háð næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna og ná hámarki um eða eftir hrygningartímann. Það kemur í ljós að kolmunnalýsi og síldarlýsi fer yfir hámarksgildi ESB fyrir tvö varnarefni, þ.e.a.s. Chlordane og Toxaphen, á hrygningartíma. Þessi tilteknu sýni voru fengin úr svokölluðu NORA verkefni sem unnið var af Félagi íslenskra fiskimjölsframleiðenda og fleirum og reyndust sýnin einnig innihalda díoxín yfir leyfilegum mörkum. Magn óæskilegra efna í fiskmjölsýnum reyndist aftur á móti undir gildandi hámarki innan ESB, fyrir öll sýnin sem tekin voru til rannsóknar.

Skýrslan er á ensku þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og fleirum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða. Hana er að finna á slóðinni: http://www.rf.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/utgafa//SKYRSLA_33-05.pdf

Gagnaöflun af þessu tagi er mjög mikilvæg í ljósi tíðra frétta um aðskotaefni í matvælum. Íslensk stjórnvöld þurfa að geta brugðist hratt og fumlaust við slíkum fréttum til að koma í veg fyrir tjón, sem af slíkri umræðu gæti hlotist. Þetta er hægt með því að hafa haldgóð vísindaleg gögn um magn þessara efna í sjávarfangi hér við land. Umfjöllun, bæði í almennum fjölmiðlum og í vísindaritum, hefur margoft krafist slíkra viðbragða íslenskra stjórnvalda og óyggjandi sýnt fram á hve mikilvægt það er að regluleg vöktun fari fram og að á Íslandi séu stundaðar sjálfstæðar rannsóknir á eins mikilvægum þætti og mengun sjávarafurða er.

Krafa um öryggi matvæla hefur aukist jafnt og þétt undanfarin og á það ekki síður við um sjávarfang en aðra matvöru. Að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins var brugðist við þessu fyrir þremur árum. Þá hófst umfangsmikil vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum, hvort heldur þær eru ætlaðar til manneldis eða fóðurgerðar. Þessu eftirliti verður haldið áfram næstu ár.

Sjávarútvegsráðuneytinu 9. febrúar 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum