Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2006 Matvælaráðuneytið

Sjávarútvegsráðherra fundar með Joe Borg framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála ESB

EKG á fundi með Joe Borg febrúar 2006Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, átti í dag fund með Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn ESB. Á fundinum var ákveðið að hefja viðræður um möguleika á frekari tollalækkunum á sjávarafurðum gegn hugsanlegu afnámi útflutningsálags á ferskan óveginn fisk. Ákveðið var að embættismenn hittist í því skyni. Ennfremur var ákveðið að hefja viðræður um möguleika á aðgangi til kolmunnaveiða innan lögsagna Íslands og ESB. Þá lýsti Joe Borg fullum stuðningi við átak íslenskra stjórnvalda gegn ólöglegum karfaveiðum á Reykjaneshrygg og hét fullri liðveislu við málstað Íslendinga, m.a. muni framkvæmdastjórnin leggja að aðildarríkjunum að virkja hafnríkislögsögu sína betur í þeirri baráttu. Sjávarútvegsráðherra og Joe Borg ákváðu að hittast aftur í tengslum við árlega sjávarútvegssýningu í Brussel í maí nk.

Á fundinum var farið yfir fjölmörg sameiginleg hagsmunamál og eins mál þar sem vandi hefur komið upp í samskiptum Íslands og ESB. Rætt var um möguleika á nýjum samningum um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, en ESB hefur nýlega gert tvíhliða samning við Noreg um veiðar úr þeim stofni. Sjávarútvegsráðherra hvatti framkvæmdastjórann til þess að viðurkenna aðgreiningu úthafskarfa í tvo stofna og samþykkja stjórnun veiða á úthafinu í samræmi við það. Þeir voru sammála um að ástæða væri til að hafa áhyggjur af ástandi stofnsinns og að nauðsynlegt væri að bæta stjórnun veiðanna. Líffræðileg fjölbreytni á úthafinu kom til umfjöllunar, en ýmis félagasamtök vilja beita hnattrænum aðgerðum gegn fiskveiðum, m.a. banni við notkun botnvörpu við veiðar á úthafinu. Samstaða var um að leggja beri áherslu á svæðisbundna stjórnun og að forðast beri að Sameinuðu þjóðirnar taki að sér stjórn fiskveiða. Joe Borg lýsti ánægju með frumkvæði Íslands og samstarf aðila, m.a. á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), varðandi gerð reglna um umhverfismerkingar sjávarafurða og óskaði eftir því að sjávarútvegsráðherra opnaði heimasíðu um efnið ásamt honum í tengslum við sjávarútvegssýninguna í Brussel í maí nk.

 

Sjávarútvegsráðuneytið 13. febrúar 2006

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum