Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2006 Matvælaráðuneytið

Fundur sjávarútvegsráðherra Íslands og Noregs

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Fundur sjávarútvegsráðherra Íslands og Noregs

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, átti í dag fund í Ósló með Helgu Pedersen sjávaútvegsráðherra Noregs. Á fundinum var rætt um þau mál sem eru efst á baugi í samskiptum landanna á sviði sjávarútvegs, bæði þar sem Ísland og Noregur standa saman og þar sem ágreiningur er.

Helsta ágreiningsefnið er stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ráðherrarnir ræddu þá stöðu sem upp er komin í þessu máli í kjölfar þess að Norðmenn hafa tekið sér stærri hlutdeild úr veiðunum, en þeir höfðu samkvæmt samningnum sem áður var í gildi. Einar lagði áherslu á að núverandi ástand leiði til ofveiða og setji stofninn í hættu. Allir aðilar hafi hag af því að stöðugleiki ríki og að veiðarnar gangi ekki of nærri stofninum. Ráðherranir vilja leita leiða til þess að leysa þann hnút sem málið er komið í og var í því sambandi bent á að samráð hagsmunaaðila hafi haft jákvæð áhrif til lausnar kolmunnadeilunnar á síðasta ári.

Full samstaða er með ráðherrunum um að nýti beri hvalastofna. Rætt var um áform landanna varðandi hvalveiðar, í því sambandi kynnti Helga Pedersen samþykkt Stórþingsins um að fela Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðinu (NAMMCO) hlutverk í stjórn hvalveiða Norðmanna. Ennfremur ræddu ráðherrarnir um möguleika á frekara samstarfi varðandi milliríkjaverslun með hvalaafurðir. Ráðherrarnir voru sammála um að halda áfram því góða samstarfi sem verið hefur milli þjóðanna í þessum málaflokki.

Rætt var um ólöglegar veiðar, bæði í Barentshafi og á Reykjaneshrygg, og farið yfir aðgerðir þjóðanna gegn þessum veiðum. Báðar þjóðirnar hafa hafið sérstakt átak gegn ólöglegum fiskveiðum sem meðal annars felst í því að hindra viðskipti þjónustuaðila við þá sem stunda ólöglegar veiðar og gera þessum aðilum erfiðara að koma afurðum sínum á markað. Lofuðu Norðmenn það framtak Íslands að senda markaðsaðilum sérstakt bréf þar sem varað er við viðskiptum við útgerðir þeirra skipa sem stundað hafa ólöglegar karfaveiðar á Reykjaneshrygg.

EKG og sjávarútvegsráðherra Noregs 14 feb 06Einar skýrði frá stöðu mála í loðnuveiðum en vegna gildandi samninga við Norðmenn þarf að fjalla um hvernig bregðast skuli við því að Norðmenn geta ekki veitt það magn sem þeim ber samkvæmt gildandi samningum. Ákveðið var að hefja viðræður um málið að lokinni loðnuvertíð.

 

                                                                       

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 14. febrúar 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum