Hoppa yfir valmynd
24. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um skýrslu Danske Bank um íslenskt efnahagslíf

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Ný skýrsla Danske Bank, næststærsta banka á Norðurlöndum, um efnahags- og fjármálalífið á Íslandi hefur vakið sterk viðbrögð á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum.

Annars vegar er það vegna þess að skýrslan jók áhyggjur markaðarins af efnahagslegum stöðugleika á Íslandi en ekki síður vegna þess að frjálslega er farið með staðreyndir og samhengi hlutanna og afgerandi niðurstöður dregnar á grundvelli þess.

Varðandi umfjöllun Danske Bank um íslenskt efnahagslíf, má benda á að skýrsluhöfundar hafa ekki sérþekkingu á íslensku hagkerfi og það útskýrir hugsanlega þær staðreynda- og greiningarvillur sem fram koma í skýrslunni. Bent er á að viðskiptahallinn var 20% af landsframleiðslu á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, en samkvæmt nýjustu tölum var viðskiptahallinn um 16,5% af landsframleiðslu fyrir árið í heild. Þá er ekki tekið tillit til þess að það ójafnvægi sem ríkir í efnahagslífinu er tímabundið. Fjármálaráðuneytið reiknar með að stóriðjuframkvæmdir nái hámarki í ár og klárist á því næsta. Þess hefur verið vænst að gengið lækki, eins og gerst hefur að undanförnu, og að draga muni úr einkaneyslu og tengdum innflutningi. Með aukinni álframleiðslu og -útflutningi er gert ráð fyrir að vöruskiptahallinn hverfi á næsta ári. Viðskiptahallinn mun því minnka hratt í ár og á næsta ári.

Í skýrslunni er talað um harða lendingu hagkerfisins árin 1999 og 2002 og því spáð að hörð lending sé framundan. Rétt er að benda á að enginn samdráttur átti sér stað árið 1999, en hagvöxtur var þá 4,3% og samdrátturinn árið 2002 var tiltölulega lítill, eða um 1% og gekk fljótt yfir. Þá benda flestar spár til að hagvöxtur verði mikill í ár en hægari á næsta ári. Það sem skýrsluhöfundar virðast ekki átta sig á er að íslensk heimili haga neyslu og innflutningi mjög eftir gengisþróun. Þegar gengið er sterkt, eins og verið hefur, aukast neysla og innflutningur en þegar það veikist snýst dæmið við. Það skýrir að stórum hluta þá hröðu aðlögun sem varð árið 2002, þegar mikill viðskiptahalli hvarf sem hendi væri veifað eftir að gengið lækkaði. Sú hegðun er því fremur til marks um sveigjanleika í ákvarðanatöku og hagsýni heimilanna, frekar en óraunhæfar væntingar. Þá draga skýrsluhöfundar þá ályktun að gengislækkun muni grafa undan fjármálastöðugleika. Í því samhengi má nefna að 73% lána bankanna eru til erlendra fyrirtækja og tekjustreymi þeirra því að mestu leyti óháð krónunni. Einnig má benda á að heimili og fyrirtæki bera almennt ekki mikla gengisáhættu á lánum sínum og að mikill hluti skulda heimilanna er bundinn í fasteignum sem eru jafnan góð veð. Íslensk heimili eru jafnframt í þeirri sérstöðu að eiga lífeyrissjóði sem standa undir lífeyrisgreiðslum til framtíðar. Fjárhagsleg staða þeirra og ríkissjóðs er því mun betri en kemur fram í skýrslunni.

Í skýrslunni er talað um að ör launaþróun sé á bak við verðbólguþróunina að undanförnu. Þetta er rangt. Verðbólgan útskýrist að mestu leyti af þeirri kerfisbreytingu sem varð í fjármögnun íbúðarhúsnæðis árið 2004, en hún átti stóran þátt í tímabundinni hækkun fasteignaverðs. Sú hækkun hefur gengið niður frá því um mitt ár 2005 og þess er vænst að sú þróun haldi áfram í ár. Þá hefur kaupmáttur launa aukist í samræmi við hraðan vöxt framleiðni vinnuafls á Íslandi, sem bendir til að um sjálfbæra þróun sé að ræða. Þó er rétt að það örlar á þrýstingi á vinnumarkaði. Í því sambandi eru tölur Danske Bank um atvinnuleysi sem hlutfall af vinnuafli einnig rangar, en atvinnuleysisstigið var í febrúar um 1,6% en ekki 1%. Þá hefur innflutningur vinnuafls aukist mjög sem hefur dregið úr þrýstingi á vinnumarkaði. Tölur þær sem skýrslan birtir um ríkisfjármálin eru ekki sambærilegar. Annars vegar er vitnað í tölur OECD um hagsveifluleiðréttan afgang en hins vegar birtar tölur um raunverulegan afgang. Ekki er samhengi á milli þessara talna, þar sem tölur OECD byggjast á eldri gögnum. Þá er mikilvægt að taka tillit til vaxtar framleiðslugetu (potential output) og þess hvert framleiðslubilið (output gap) er þegar fjallað er um áhrif hagsveiflunnar á ríkisfjármálin. Samkvæmt mælingum ráðuneytisins hafa áhrif hagsveiflunnar verið lítil á síðasta ári. Fleira má nefna, en þetta er látið nægja til að draga fram annmarka skýrslunnar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum