Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 8/2006

Þjóðarbúskapurinn 25. apríl 2006

Fjármálaráðuneytið hefur birt skýrsluna Þjóðarbúskapurinn - vorskýrsla 2006 sem hefur að geyma nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2006 til 2007 ásamt framreikningi til ársins 2010. Í skýrslunni eru birtar greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála. Nokkrar breytingar frá janúarspá eru útskýrðar. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þessar:

  • Bráðabirgðatölur fyrir árið 2005 benda til að landsframleiðslan hafi aukist um 5,5% vegna ört vaxandi þjóðarútgjalda. Til viðbótar við stóriðjufjárfestingar urðu ófyrirséðar breytingar á fjármálamarkaði sem höfðu tímabundin áhrif til að stórauka einkaneyslu og innflutning.
  • Þrátt fyrir ókyrrð á fjármálamarkaði undanfarna mánuði eru áherslur í spánni að mestu óbreyttar. Í ár er gert ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 4,8% að raungildi en á grundvelli breyttrar samsetningar hagvaxtarins. Það hægir hratt á vexti þjóðarútgjalda og innflutnings en stóraukinn útflutningur áls segir til sín. Brottflutningur varnarliðsins er metinn að hafa lítilsháttar áhrif á hagvöxtinn til lækkunar en skapa hins vegar ný tækifæri þegar fram í sækir.
  • Spáð er samdrætti í þjóðarútgjöldum árið 2007 í kjölfar aðhaldssamrar hagstjórnar undanfarin ár og loka yfirstandandi stóriðjuframkvæmda. Þrátt fyrir það mun kröftugur viðsnúningur í utanríkisviðskiptum verða til þess að hagvöxtur það ár verður 1,8%.
  • Óhjákvæmileg afleiðing tímabundinna búhnykkja hefur verið stórfelldur viðskiptahalli sem nam 16,5% af landsframleiðslu árið 2005. Útlit er fyrir að viðskiptahallinn verði áfram mikill í ár, eða 14,4% af landsframleiðslu, en að hann dragist hratt saman árið 2007 og verði 7,7% af landsframleiðslu. Lækkun á gengi krónunnar flýtir fyrir ytri aðlögun þjóðarbúsins.
  • Atvinnuleysi hefur minnkað ört og áætlað er að það verði 1,6% af vinnuafli í ár en aukist í 2,2% árið 2007 þegar hægir á í efnahagslífinu. Framleiðsluspenna í hagkerfinu í ár verður meiri en gert hefur verið ráð fyrir. Ástæðan er sú að endurskoðaður þjóðhagsreikningur fyrir árið 2004 sýnir að hagvöxtur var 8,2% það ár en ekki 6,2%. Gert er ráð fyrir að hratt dragi úr spennu í hagkerfinu vegna breyttra aðstæðna á lánamarkaði, snarprar lækkunar á gengi krónunnar í upphafi ársins og þess að núverandi stóriðjuframkvæmdum lýkur á næsta ári.
  • Verðbólga var um 4% árið 2005 vegna mikillar hækkunar fasteignaverðs sem náði jafnframt hámarki um miðbik ársins. Fasteignaverðshækkanir hafa verið að ganga hratt niður en nýleg lækkun á gengi krónunnar hefur áhrif til að vísitala neysluverðs hækkar enn meira og verðbólgan verður 5,9% í ár. Sú þróun er tímabundin og árið 2007 er spáð að verðbólga verði 3,5%.
  • Í spá fyrir árin 2008-2010 leitar hagkerfið til jafnvægis og árlegt meðaltal hagvaxtar og verðbólgu verður um 2,5% og viðskiptahalli verður kominn í um 2,0% af landsframleiðslu í lok tímabilsins.
  • Íslenska hagkerfið er orðið hluti af alþjóðlegu efnahagslífi með öllum þeim tækifærum og áskorunum sem því fylgja. Í alþjóðlegum skýrslum er íslenska hagkerfið talið með þeim samkeppnishæfustu í heiminum vegna mannauðs, tæknistigs og skipulagsmála. Fyrirtækin, sem búa við sveigjanleg starfsskilyrði, eru ábatasöm og vel í stakk búin að takast á við breytilegar aðstæður. Þá er staða ríkissjóðs sterk og eignir landsmanna margfalt meiri en skuldir þeirra. Því er lítil hætta talin á að sá árangur sem náðst hefur undanfarin ár stöðvist eða gangi til baka.
  • Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða gengi krónunnar og frekari stóriðjuframkvæmdir.

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.

Fjármálaráðuneytinu, 25. apríl 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum