Hoppa yfir valmynd
2. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 23/2006

Fjármálaráðuneytið hefur birt nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2006 til 2008 auk framreikninga til ársins 2012. Nýja þjóðhagsspá er að finna í skýrslu fjármálaráðuneytisins Þjóðarbúskapurinn - haustskýrsla 2006 þar sem birtar eru greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2006-2008, meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins.

Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:

  • Bráðabirgðatölur benda til að landsframleiðslan hafi aukist umtalsvert undanfarin ár, eða 7,7% árið 2004 og 7,5% árið 2005, vegna ört vaxandi þjóðarútgjalda. Atvinnuvegafjárfesting var fyrirferðamikil en einnig jukust umsvif á fasteignamarkaði og vöxtur einkaneyslu umtalsvert.
  • Kröftugan vöxt innlendrar eftirspurnar undanfarin ár má að hluta rekja til nýjunga á fjármálamarkaði sem voru að miklu leyti ófyrirséðar. Þótt breytingarnar séu eflaust til góðs fyrir hagkerfið til lengri tíma litið juku þær ójafnvægi í þjóðarbúskapnum tímabundið þrátt fyrir vaxandi aðhald í hagstjórn.
  • Ókyrrð á fjármálamarkaði snemma árs leiddi til lækkunar á gengi krónunnar og verði hlutabréfa. Merki eru um að nú sé tekið að draga úr umsvifum á fasteignamarkaði og vexti einkaneyslu. Gert er ráð fyrir að hægja muni á hagvexti og hann verði 4,2% árið 2006.
  • Spáð er miklum samdrætti í fjárfestingu þegar yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum lýkur að mestu árið 2007, en minni samdrætti í einkaneyslu. Kröftugur viðsnúningur í utanríkisviðskiptum vegna aukins útflutnings á áli og samdráttar í innflutningi knýr hins vegar hagvöxtinn á næstu árum, sem er spáð að verði 1,0% árið 2007 og 2,6% árið 2008.
  • Viðskiptahallinn nam 16,1% af landsframleiðslu árið 2005 en áætlað er að hann aukist í ár og verði 18,7%. Spáð er að viðskiptahallinn dragist hratt saman og verði 10,7% af landsframleiðslu árið 2007 og 3,8% árið 2008. Lækkun á gengi krónunnar flýtir fyrir ytri aðlögun þjóðarbúsins.
  • Atvinnuleysi hefur minnkað ört og er áætlað að það verði 1,3% af vinnuafli í ár en aukist í 2,1% árið 2007 þegar dregur saman í efnahagslífinu. Vegna endurskoðunar þjóðhagsreikninga til hækkunar er framleiðsluspenna árin 2005 og 2006 nú talin hafa verið meiri en áður var. Spennan mun minnka hratt á komandi misserum.
  • Verðbólga var 4% árið 2005 vegna mikillar hækkunar fasteignaverðs það ár. Lækkun á gengi krónunnar hefur áhrif til að verðbólgan verður 7,3% í ár. Spáð er að verðbólga verði komin á verðbólgumarkmið á seinni hluta 2007, en verði 4,5% fyrir árið í heild og 2,5% árið 2008.
  • Tekjuafgangur ríkissjóðs nam 5,6% af landsframleiðslu árið 2005 og er áætlað að hann verði 4,0% af landsframleiðslu í ár. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að afgangurinn verði 1,5% af landsframleiðslu árið 2007. Þessi árangur er í samræmi við rannsóknir sem benda til að ríkissjóður hafi umtalsverð sveiflujafnandi áhrif á þjóðarbúskapinn. Vegna lífeyrissparnaðar landsmanna og lítilla skulda er staða ríkissjóðs sterk í alþjóðlegum samanburði.
  • Í langtímaspá til ársins 2012 leitar hagkerfið jafnvægis. Í lok tímabilsins er spáð að hagvöxtur nemi um 3%, verðbólga rúmlega 2% og viðskiptahalli um 2% af landsframleiðslu.
  • Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða gengi krónunnar, frekari stóriðjuframkvæmdir og aðstæður í alþjóðlegu efnahagslífi.

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.


Fjármálaráðuneytinu, 2. október 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum