Hoppa yfir valmynd
18. október 2006 Innviðaráðuneytið

Iceland Naturally vekur athygli í London

Ég er mjög ánægður með aðsóknina sem sýnir að Ísland vekur áhuga og athygli meðal ferðaþjónustunnar, fjölmiðla og í viðskiptalífinu. Þetta segir Stephen Brown, forstöðumaður Icelandair í Bretlandi, um kynningarátakið Iceland Naturally sem hófst formlega í London síðastliðinn mánudag.

IN_London0024
Stephen Brown og Sturla Böðvarsson á skrifstofu Icelandair í London.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, voru viðstaddir athöfnina sem stjórn Iceland Naturally verkefnisins skipulagði en hitann og þungann af henni bar Stephen Brown. Hann sagði nærveru þeirra skipta miklu máli í kynningu sem þessari og sýna að stjórnvöld styddu verkefnið heilshugar. Þeir fluttu báðir ávarp við opnunina og Stephen Brown kynnti fyrirtækin sem standa að Iceland Naturally átakinu í Evrópu. Átakið fer fram í þremur löndum, Þýskalandi, Bretlandi og Frakklandi.

Í ávarpi sínu sagði Sturla Böðvarsson að reynslan af Iceland Naturally verkefninu í Bandaríkjunum sýndi að viðhorf manna til Íslands breyttust. Merkja mætti aukinn áhuga fyrir að ferðast til landsins, að menn teldu ís og snjó ekki vera aðaleinkenni þess og að menn vissu að landið væri áhugavert vegna náttúru þess og menningar.

Öflug markaðssetning með samstarfi

Samgönguráðherra sagði einnig meðal annars í ávarpinu: ,,Eftir þá reynslu sem fengist hefur vestan hafs var ákveðið að hefja sams konar starf í Evrópu í þeirri bjargföstu trú að samstarf þessara aðila sé mun öflugri leið til markaðssetningar og hún verði mun víðtækari. Þannig er ekki aðeins verið að fjalla um náttúru Íslands og allt sem hún hefur uppá að bjóða heldur líka framleiðslu og þjónustu og ekki síður menningu sem við erum líka rík af. Icelandair, Bláa lónið, Iceland Spring Water og Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru strax til í að taka þátt í verkefninu og þakka ég þeim fyrir þann áhuga og kraft sem þau hafa sýnt. Við leggjum samt mikla áherslu á að fá fleiri fyrirtæki til samstarfs undir merkjum Iceland Naturally svo slagkrafturinn verði enn meiri.”

Sverrir Haukur Gunnlaugsson sagði meðal annars í ávarpi sínu að Íslendingar hefðu fjárfest í fyrirtækjum á ýmsum sviðum viðskipta og þjónustu í Bretlandi undanfarin misseri. Það væri hins vegar nýtt að nokkur fyrirtæki sameinuðust í markaðsátaki sem væri einmitt tilgangurinn með Iceland Naturally. Hann sagði ráðgert að átakið stæði í nokkur ár og aðal markmið þess væri að opna augu Breta fyrir Íslandi ekki síst í því skyni að laða þá þangað í heimsókn.

,,Samvinna um markaðsaðgerðir af þessum toga er lykilatriði því þannig náum við þeirri athygli sem þarf til að vekja áhuga manna á landinu og því sem það hefur að bjóða," segir Stephen Brown einnig. ,,Við fengum hingað fulltrúa ferðaþjónustunnar, fólk úr viðskiptalífinu og ýmsa fjölmiðla og þannig tel ég hafa tekist vel að vekja nýjan áhuga á landinu meðal þessara aðila sem síðan á eftir að skila sér í auknum viðskiptum.”

Aðilar að Iceland Naturall átakinu auk samgönguráðuneytisins, eru Icelandair, Bláa lónið, Iceland Spring Water og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þessir aðilar leggja fram fjármagn á móti samgönguyfirvöldum í kynningarátakið. Stephen Brown tekur undir þá skoðun samgönguráðherra að æskilegt sé að fá fleiri samstarfsaðila inní hópinn. ,,Okkur fyndist æskilegast að fá matvælaframleiðendur með því þá fyrst getum við kynnt allar hliðar á Íslandi, náttúru, ferðir, þjónustu, menningu og matvælaframleiðslu sem er ekki minnsta atriðið þegar ferðaþjónusta er annars vegar.” Hann segir vélar Icelandair flytja kringum 5 tonn af fiski nánast í hverri ferð til Bretlands og íslenskar afurðir séu því nokkuð vel þekktar í landinu.

Um 60 ferðaskrifstofur sinna Íslandi

Í Bretlandi sinna kringum 60 ferðaskrifstofur eða ferðaheildsalar Íslandi. Stephen Brown segir mjög misjafnt hversu mikil umsvif þeir hafi. Sumir einbeiti sér að laxveiðiferðum, aðrir að hestaferðum og enn aðrir bjóði alhliða ferðir og ferðaþjónustu. ,,Hér voru milli 15 og 20 af helstu ferðaþjónustufyrirtækjunum sem við skiptum við,” sagðui Stephen Brown og segir það mikilvægt fyrir samstarfsfyrirtækin í Iceland Naturally að geta fengið góðan aðgang að þessum fyrirtækjum til að veita þeim upplýsingar og fræðslu um það sem er í boði á Íslandi.

Áhugi fyrir Íslandi er talsverður í Bretlandi og segir Stephen Brown það mikilvægt að geta haldið áfram að auka vitund fólks og þekkingu þess á Íslandi. Hann segir Iceland Naturally átakið skipulagt til þriggja ára og hann telur æskilegast að leggja áherslu á eitt landanna í einu og taka þau þannig koll af kolli til að nýta fjármuni og krafta sem best. Hann segir ekki heldur hægt að viðhafa nákvæmlega sömu markaðsaðgerðir í öllum löndunum þremur, eitt henti vel í Þýskalandi, annað í Bretlandi og enn aðra áherslu verði að viðhafa í Frakklandi.

Icelandair heldur uppi áætlunarflugi til þriggja borga í Bretlandi, London, Glasgow og Manchester. Stephen Brown segir að þannig eigi Bretar auðveldan aðgang að þægilegum ferðum til Íslands. Hann segir Bretland meðal mikilvægustu markaða Icelandair og því brýnt að bjóða tíðar ferðir ekki síst frá London eins og nú er. Í dag er flogið tvisvar í viku til Manchester, fjórum sinnum vikulega til Glasgow og til London eru tvær ferðir daglega og suma daga þrjár ferðir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum