Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Íslenska ríkið og Þjóðkirkjan semja um prestssetur

Í dag undirrituðu biskup Íslands Karl Sigurbjörnsson, dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason og fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen samkomulag milli íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar um prestssetur.

Fréttatilkynning frá Þjóðkirjunni

Í dag undirrituðu biskup Íslands Karl Sigurbjörnsson, dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason og fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen samkomulag milli íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar um prestssetur.

Viðræður aðila um þetta mál hafa staðið með hléum undanfarin ár. Samkomulagið frá því í dag verður viðauki við samkomulag sömu aðila frá 10. janúar 1997 um afhendingu kirkjujarða til ríkisins og endurgjald ríkisins til Þjóðkirkjunnar vegna þeirra. Þá voru prestssetrin undanskilin og kveðið á um, að síðar yrði tekin afstaða til þeirra. Hefur það nú verið gert og staðfest með undirrituninni í dag.

Í samkomulaginu eru prestssetur á forræði Þjóðkirkjunnar ákveðin og hver þeirra eru ríkiseign. Staðfest er að þær eignir sem Prestssetrasjóður f.h. Þjóðkirkjunnar tók við frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1994 verði þinglýstar eignir Þjóðkirkjunnar. Endurgjald ríkisins vegna samkomulagsins felst í því að árlegt framlag ríkissjóðs í Kirkjumálasjóð er hækkað um 3%. Samhliða þessu falla brott ýmsir liðir á fjárlögum þar sem veitt hefur verið fé til nokkurra verkefna Þjóðkirkjunnar, þannig að heildargreiðslur úr ríkissjóði aukast um 35 m. kr. á ári.

Aðilar að samkomulaginu lýsa yfir því í lok þess „að sú eignaafhending og árleg greiðsla sem á sér stað með samkomulagi þessu sé fullnaðaruppgjör milli íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar vegna allra prestssetra og hvorugur aðili eigi kröfu á hendur hinum vegna þeirra.“Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira