Hoppa yfir valmynd
8. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnuleysisbætur hækka um 2,9% þann 1. janúar 2007

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 7. mars 2004 vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki um 2,25% 1. janúar 2007. Síðari tíma yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga, þ.e. frá 15. nóvember 2005 og 22. júní 2006, bera ekki með sér breytingar á þessu.

Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að launa- og verðlagsbætur á fjárlagalið Atvinnuleysistryggingasjóðs nemi 2,9%. Jafnframt er nú ljóst að allir almennir kjarasamningar ríkisins við félög opinberra starfsmanna, félög innan ASÍ og fleiri hækka um 2,9% þann 1. janúar nk. í stað 2,25% eins og gert hafði verið ráð fyrir í kjarasamningunum. Sömu hækkanir koma fram í niðurstöðu forsendunefndar SA og ASÍ frá árinu 2005, þ.e. að almennar hækkanir launataxta verði 2,9% í stað 2,25% þann 1. janúar nk.

Með vísan til framangreinds, sbr. einnig 3. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem gert er ráð fyrir meðal annars að fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála, er hér með gerð tillaga um að atvinnuleysisbætur hækki um 2,9% þann 1. janúar 2007 í stað 2,25%.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum