Hoppa yfir valmynd
12. desember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurákvörðun vaxtabóta

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 38/2006

Hinn 24. nóvember sl. voru afgreidd frá Alþingi lög um breytingar á vaxtabótum, sem kveða á um að lágmark eignaviðmiðunar, að frádregnum skuldum, til skerðingar á vaxtabótum er hækkað afturvirkt um 30%.

Eru lög þessi í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá júní sl. þar sem ríkisstjórnin lýsti sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kæmi við niðurstöðu álagningar í ágúst að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum. Heildartölur úr skattframtölum sýna að framtalin nettóeign allra framteljenda hækkaði að meðaltali um tæp 25% milli áranna 2004 og 2005.

Lokið er endurákvörðun vaxtabóta vegna vaxtagjalda á árinu 2005 samkvæmt skattframtali 2006. Endurákvörðun vaxtabóta nær til tæplega 15.000 skattaðila en þar af eru rúmlega 6.000 sem öðlast rétt til vaxtabóta en fengu ekki vaxtabætur samkvæmt álagningu í ágúst sl. Samtals er hækkun útgreiddra vaxtabóta að fjárhæð 577 m.kr.

Tilkynningar um breytingar á vaxtabótum hafa verið sendar þeim sem endurákvörðunin tók til samkvæmt forsendum laganna og fer útgreiðsla vaxtabótanna, að teknu tilliti til skuldajafnaðar, fram í dag. Kærufrestur til skattstjóra vegna ofangreindrar endurákvörðunar er 30 dagar frá dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að endurákvörðun sé lokið.

Reykjavík 12. desember 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum