Hoppa yfir valmynd
14. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt frumvarp varðandi umönnunargreiðslur

Á Alþingi hefur verið samþykkt frumvarp Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldrarorlof. Lögin taka gildi 1. janúar næstkomandi.

Frumvarpið tryggir samræmingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði annars vegar og umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hins vegar. Fram til þessa hafa greiðslur í fæðingarorlofi og réttur til umönnunargreiðslna ekki farið saman, þ.e. foreldrar sem átt hafa rétt til greiðslna í fæðingarorlofi hafa ekki á sama tíma átt rétt til umönnunargreiðslna. Úr þessu verður bætt með nýjum lögum.

„Ég hét því í umræðum um málið á Alþingi 1. nóvember síðastliðinn að beita mér fyrir breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á yfirstandandi þingi í þá veru að þessar greiðslur færu saman,“ sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu. „Tilgangur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og umönnunargreiðslna, á grundvelli 4. gr. laga um félagslega aðstoð, er ekki sá sami. Greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ætlað að mæta tekjumissi foreldra er þeir annast barn sitt í fæðingarorlofi, en umönnunargreiðslum er ætlað að mæta útgjöldum fjölskyldna sem rekja má til veikinda eða fötlunar barna.“

Auk þess var nauðsynlegt að breyta lögunum þar sem ákveðið hefur verið að fela Vinnumálastofnun vörslu Fæðingarorlofssjóðs en varsla hans hefur fram að þessu verið í höndum Tryggingastofnunar ríkisins. Að auki er fallið frá kröfu um að tryggingayfirlæknir endurmeti vottorð frá lækni um hvort lenging fæðingarorlofs eða lenging á rétti til fæðingarstyrks sé nauðsynleg. Í staðinn verður Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðila um hvort slík lenging sé nauðsynleg. Er það því lagt í hendur framkvæmdaraðilans að meta hvort þörf sé á endurmati á vottorði læknis umsækjanda. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við ákvæði laga um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

Á fundi félagsmálanefndar á Alþingi um frumvarpið kom fram að Vinnumálastofnun hefur að undanförnu unnið að undirbúningi hinnar nýju starfsemi sem til stendur að verði að mestu rekin á Hvammstanga. Þar munu starfa níu manns en auk þess verða tvö stöðugildi í Reykjavík.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum