Hoppa yfir valmynd
17. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samkomulag undirritað um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirrituðu á föstudag samkomulag um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna árin 2007 og 2008. Samkomulagið felur í sér að veittar verði allt að 120 milljónir króna til þjónustunnar hvort ár.

Framlög ríkisins til sjálfseignarstofnana og hagsmunasamtaka sem sjá um þjónustu við fötluð grunnskólabörn, sem jafna má til lengdrar viðveru, verða óbreytt svo sem þjónusta sem þegar er veitt í Lyngási og Ragnarsseli.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra lýsti yfir sérstakri ánægju yfir því að nú liggi fyrir lausn á þessu máli og væntir þess að sem flest sveitarfélög veiti góða þjónustu á grundvelli samkomulagsins börnunum og fjölskyldum þeirra til hagsbóta.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði samkomulagið byggt á vinnu nefndar um þessi mál og hér væri um niðurstöðu að ræða sem væri til vitnis um gott samstarf ríkis og sveitarfélaga. Halldór lagði áherslu á að sveitarfélögin tækju ákvörðun um það hvert fyrir sig hvort þau byðu upp á þessa þjónustu. Aðstæður væru mismunandi hjá sveitarfélögunum og mörg þyrftu ekki að bjóða þjónustuna. Halldór þakkaði félagsmálaráðherra gott samstarf í þessu máli.

Um alllangt skeið hefur verið unnið að framtíðarlausn varðandi það hver skuli greiða kostnað vegna fatlaðra grunnskólabarna á aldrinum 10 til 16 ára (í 5. til 10. bekk) sem fá þjónustu eftir að skólastarfi lýkur eða svokallaða lengda viðveru. Með lengdri viðveru er átt við dægradvöl og aðstoð við heimanám sem veitt er grunnskólabörnum eftir að skólastarfi lýkur og stendur fram til klukkan 17 hvern skóladag. Varðandi yngri grunnskólabörnin á aldrinum 6 til 9 ára (í 1. til 4. bekk) stendur þeim almennt til boða að fá þessa þjónustu hjá sveitarfélögunum. Ekki skiptir þá máli hvort um fötluð eða ófötluð börn er að ræða.

Þá hafa einstök sveitarfélög í nokkrum tilvikum jafnframt boðið fötluðum grunnskólabörnum á aldrinum 10 til 16 ára lengda viðveru svo sem í Öskjuhlíðarskóla í Reykjavík og Árholti á Akureyri og það hefur ríkið einnig gert með sérstökum framlögum til sjálfseignarstofnana og hagsmunasamtaka sem veitt hafa þjónustuna og svæðisskrifstofur málefna fatlaðra. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 17. nóvember síðastliðinn að félagsmálaráðuneytið gengi til viðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslu á greiðsluþátttöku ríkisins í lengdri viðveru fatlaðra grunnskólabarna til bráðabirgða í tvö ár frá 1. janúar 2007 að telja. Slíkt samkomulag liggur nú fyrir.

Samkomulagið byggist á því að jafnframt verði lög um málefni fatlaðra endurskoðuð í því skyni að kveða skýrt á um hlutverk og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga varðandi lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum