Hoppa yfir valmynd
21. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný heildarlög um gatnagerðargjald

Alþingi hefur samþykkt ný heildarlög um gatnagerðargjald.

Með setningu laganna er stefnt að því að eyða ýmsum óvissuþáttum sem upp höfðu komið við framkvæmd eldri laga, ekki síst um það hvort gatnagerðargjald teldist þjónustugjald eða skattur. Jafnframt eru reglur um gjaldstofn gatnagerðargjalds einfaldaðar. Í lögunum er sett fram sú grundvallarskilgreining að gatnagerðargjald sé skattur sem er lagður á fasteignir í þéttbýli. Um skil þéttbýlis og dreifbýlis vísast í lögunum til samþykkts deiliskipulags eða staðfests aðalskipulags á hverjum tíma.

Til að einfalda útreikning gatnagerðargjalds, samræma gjaldtöku milli sveitarfélaga og auðvelda samanburð, er gerð sú breyting frá gildandi lögum að álagning gatnagerðargjalds miðast við flatarmál byggingar við útreikning gatnagerðargjalds í stað þess að sveitarstjórnir hafi val milli flatarmáls lóðar, rúmmáls húss og fermetrafjölda húss eða blöndu af þessum leiðum, líkt og gert er í núgildandi lögum. Sveitarfélög munu þó áfram hafa fremur rúmar heimildir til reglusetningar um gatnagerðargjald, meðal annars með tilliti til ákvörðunar álagningarprósentu og almennra og sérstakra lækkunarheimilda. Í samræmi við gildandi lög og framkvæmd er sveitarfélögum heimilt að ákveða mishátt gatnagerðargjald fyrir einstakar tegundir húsnæðis.

Í lögunum er kveðið á um að fjárhæð gatnagerðargjalds nemi að hámarki 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987 um vísitölu byggingarkostnaðar. Er þetta sama hlutfall og markar hámark gatnagerðargjalds í núgildandi lögum. Til að auka fyrirsjáanleika og gegnsæi er í frumvarpinu hins vegar gert ráð fyrir því að hvert sveitarfélag setji sér sérstaka samþykkt eða gjaldskrá þar sem fjárhæð gatnagerðargjalds er ákveðin sem hlutfall af fyrrnefndum grunni.

Að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga er kveðið á um það í lögunum að heimild sveitarfélaga til að leggja á svonefnt B-gatnagerðargjald vegna eldri fasteigna, í samræmi við bráðabirgðaákvæði í gildandi lögum, verði framlengd til loka ársins 2009. Ákvæðið gildir aðeins um lóðir sem úthlutað var eða veitt var byggingarleyfi á fyrir 1. janúar 1997.

Lögin taka gildi 1. júlí 2007.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum