Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2007 Innviðaráðuneytið

Allt vestnorrænt ferðamálasamstarf sameinað í NATA

Undirritaður hefur verið nýr samningur milli Íslands, Grænlands og Færeyja um ferðamálasamstarf milli landanna. Samningurinn kallast NATA, North Atlantic Tourism Association. Fulltrúar Íslands í stjórninni eru Áslaug Alfreðsdóttir, Gunnar Sigurðsson og Magnús Oddsson. Ráðherrar ferðamála frá löndunum þremur, Sturla Böðvarsson, Bjarni Djurholm frá Færeyjum og Grænlendingurinn Siverth Heilmann gengu frá samkomulaginu.

Með samningnum er stofnaður nýr vettvangur á gömlum grunni til að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins. Í NATA sameinast starfsemi Vestnorræna ferðamálaráðsins (VNTB), sem öll löndin eiga aðild að, og markmið ferðamálasamninganna SAMIK og FITUR, sem í gildi hafa verið frá árinu 1995 við Grænland og Færeyjar. Nýtt nafn á að undirstrika breytinguna, hafa alþjóðlega skírskotun og einnig er haft í huga að samstarfið geti náð til fleiri nágranna við Norður-Atlantshafið í framtíðinni.

Í samningnum kemur fram að markmið NATA sé að styrkja, samhæfa og tryggja ferðamálasamstarf á milli landanna. NATA ber að skilgreina sameiginlega hagsmuni og fjalla m.a. um um gæðamál, ýmis samstarfsverkefni og stofna sérstaka vefgátt fyrir ferðaþjónustu á vestnorræna svæðinu. Níu manna stjórn stýrir verkefninu, þrír frá hverju landi, og verður hún skipuð til þriggja ára. Formennskan verður fyrsta árið hjá Grænlandi en flyst síðan á milli landanna. Stjórnin skal halda a.m.k. tvo fundi árlega og ákveða sjálf starfsreglur sínar.

NATA hefur einnig það hlutverk að efla samstarf í markaðsmálum, auglýsa styrki til eins og hingað til (SAMIK og FITUR) og að tryggja þróun vestnorrænu ferðakaupstefnunnar, VNTM.

NATA verður fjármagnað af stjórnvöldum en einnig er gert ráð fyrir að stjórnin sæki um styrki í ýmsa sjóði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum