Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Breytingar á grunnskólalögum nr. 66/1995 og endurskoðaður almennur hluti aðalnámskrár grunnskóla frá 1999

Til grunnskóla, sveitarfélag, skólaskrifstofa og ýmissa hagsmunaaðila

Menntamálaráðuneytið vekur athygli á því að 1. janúar 2007 taka gildi lög nr. 98/2006, sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2006, um breytingu á lögum nr. 66/1995, með síðari breytingum. Grunnskólalögin, nr. 66/1995 með síðari breytingum eru aðgengileg í lagasafni menntamálaráðuneytisins á /log-og-reglugerdir/ og í lagasafni alþingis á http://www.althingi.is/altext/stjt/1995.066.html

Meginbreytingarnar á grunnskólalögunum sem taka gildi 1. janúar nk. eru:

  • Skýrari ákvæði um stofnun grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum.
  • Lögbundið er lágmarksframlag sveitarfélaga til þessara skóla, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að tryggja rekstrargrundvöll þeirra.
  • Fellt er niður ákvæði um að meðallengd kennslustunda skuli vera 40 mínútur. Einungis er kveðið á um lámarks vikulegan kennslutíma í mínútum, en ekki í kennslustundum. Breyting þessi eykur sveigjanleika skóla til að skipuleggja skólatímann með öðrum hætti en út frá meðallengd kennslustunda.
  • Víðtækari heimildir til mats á námi utan grunnskóla til valgreina.
  • Skerpt er á lögbundnum umsagnarrétti foreldraráða þannig að hann nái til fyrirhugaðra meiriháttar breytinga á skólahaldi og starfsemi skóla.
  • Sérstök áhersla er lögð á aukinn þátt nemenda í skólastarfinu með því að lögbinda að við hvern grunnskóla skuli starfa nemendaráð og er því ætlað aukið hlutverk.
  • Lögfest eru nokkur ákvæði sem snúa að námsumhverfi nemenda, öryggi og vellíðan þeirra í skólastarfi.
  • Málsmeðferðarreglur eru gerðar skýrari, auk þess sem orðlagi í nokkrum greinum er breytt eða það gert skýrara.

Sérstaklega er vakin athygli á breytingu á 5. mgr. 35. gr. laga nr. 66/1995 en þar er menntamálaráðherra heimilað að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein og að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi náms í skyldunámsgrein. Þessi heimild er nú flutt til skólastjóra. Með þessari breytingu er dregið úr afskiptum ráðuneytisins af málefnum einstakra grunnskólanemenda og skólastjórum falið að meta hvort gildar ástæður eru fyrir undanþágubeiðni.

Á þessu ári, 2006, hefur nefnd unnið að heildarendurskoðun á grunnskólalögum. Nefndin hefur haft víðtækt samstarf við hagsmunaaðila og á að skila tillögum að frumvarpi í upphafi árs 2007. Vakin er athygli á því að hægt er að nálgast ýmis gögn sem tengjast heildarendurskoðun laganna á heimasíðu ráðuneytisins.

Menntamálaráðuneytið vill með bréfi þessu einnig vekja athygli á breytingum á almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla sem taka gildi 1. ágúst 2007. Almennur hluti er fyrsti hluti aðalnámskrárinnar, en einstakir námsgreinahlutar verða gefnir út í endurskoðaðri útgáfu á árinu 2007. Aðalnámskrá grunnskóla verður nú í fyrsta sinn eingöngu gefin út á rafrænu formi. Að þessu sinni eru einungis gerðar lágmarksbreytingar á námskránni sem taka mið af þróun skólastarfs undanfarin ár og orðalagsbreytingar í samræmi við lög nr.98/2006 sem taka gildi 1. janúar 2007.

Í samræmi við lagabreytingarnar er gerð sú breyting á viðmiðunarstundaskrá að vikustundir nemenda eru settar fram í mínútum og  lágmarkskennslutími á viku í hverri  námsgrein miðast við áfanga í stað ára.  Þannig segir viðmiðunarstundaskrá til um vægi námsgreina innbyrðis og fjölda kennslustunda í einstökum námsgreinum sem hver nemandi á rétt á frá 1. – 4. bekk, 5. –7. bekk og 8. – 10. bekk. Á þennan hátt er stuðlað að auknum sveigjanleika til að auka sjálfstæði skóla við skipulag náms og kennslu.

Í  endurskoðaðri aðalnámskrá er lagður stefnumótandi grunnur að breytingu á framsetningu þrepamarkmiða í greinanámskrám. Breytingin felst í því að þrepamarkmið verða birt í viðauka þar sem það á við. Þau eru sett fram sem dæmi um útfærslu sem skólar geta haft til viðmiðunar og eru  því ekki bindandi. Meginrök fyrir breytingu á framsetningu þrepamarkmiða er að gefa skólum aukið tækifæri til að taka frumkvæði í að útfæra áfangamarkmið aðalnámskrár miðað við eigin stefnu og áherslu í kennslu.

Menntamálaráðuneytið væntir þess að þessum upplýsingum sé komið á framfæri þar sem það á við.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum