Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkur afhentur RKÍ vegna flóttamanna í Króatíu

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra afhendir Rauða krossinum styrk
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra afhendir Rauða krossinum styrk

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur í samráði við flóttamannanefnd ákveðið að veita Rauða krossi Íslands styrk að fjárhæð kr. 3.816.000 til flóttamannaverkefnis í Króatíu.

Verkefni þetta miðar að því að aðstoða aldraða flóttamenn af serbneskum uppruna sem eru að koma sér fyrir á heimaslóðum sínum, en þaðan flúðu þeir meðan stríðsástand ríkti á Balkanskaga.

Með verkefninu er ætlunin að veita 190 flóttamönnum aðstoð sem koma aftur til baka frá Bosníu og Serbíu heim til héraðanna Lika, Dalmatian, Kordun og Banovina í Króatíu. Það er framhald á hliðstæðu framtaki Rauða krossins sem félagsmálaráðuneytið styrkti á árinu 2005.

Formleg afhending styrksins fór fram í húsakynnum Rauða kross Íslands að Efstaleiti 9 í Reykjavík kl. 13 í dag.

„Ísland á samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að skipa sér framarlega í flokki þeirra þjóða sem berjast fyrir mannréttindum," segir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra. „Það skiptir miklu máli að við getum orðið að liði í þessu sambandi og styrkveitingar af því tagi, sem hér um ræðir, hafa áður gefið góða raun. Það sýna athuganir Rauða krossins. Verkefni, sem íslensk stjórnvöld styrktu, hafa mætt brýnni þörf, framkvæmd gengið vel og kostnaður verið í samræmi við kostnaðaráætlun."

Ómar H. Kristmundsson, formaður Rauða kross Íslands, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd samtakanna.

„Rauði kross Íslands þakkar framlag íslenskra stjórnvalda sem nú er veitt í annað sinn til verkefnis af þessu tagi," segir Ómar H. Kristmundsson. „Framlagið árið 2005 gerði okkur kleift að útvega flóttafólkinu rúm og eldunartæki auk nauðsynlegra handverkfæra til léttra landbúnaðarstarfa. Með framlagi stjórnvalda nú getum við aðstoðað fleiri flóttamenn með aðstoð króatíska Rauða krossins og sjálfboðaliða hans."

Styrkupphæðin byggist á fjárhagsáætlun Rauða kross Íslands sem hefur umsjón og eftirlit með verkefninu en króatíski Rauði krossinn annast aðstoðina við flóttafólkið.

Flóttamaður í Króatíu staðfestir móttöku hjálpargagna frá Íslandi„Mér er sérstaklega ljúft að afhenda Rauða krossinum þennan styrk til að halda áfram aðkallandi flóttamannahjálp á Balkanskaga," segir Magnús Stefánsson. „Með þessu móti er ekki aðeins leyst tímabundið úr brýnni neyð heldur flóttafólki hjálpað að koma aftur undir sig fótunum í sínum heimkynnum. Það er að mínu mati einn meginkostur þessa verkefnis og ég vildi gjarnan sjá fleiri slík verkefni styrkt í framtíðinni."

„Flóttafólkið sneri nær allslaust til baka til fyrri heimkynna sem voru eyðilögð í stríðsátökunum," segir Ómar H. Kristmundsson. „Margir höfðu dvalið í flóttamannabúðum í Serbíu í allt að tíu ár. Að hjálpa flóttafólki að snúa aftur til síns heima er góð leið þegar það er mögulegt. Það verður þó að hafa í huga að alltaf verða einhverjir flóttamenn sem ekki er unnt að aðstoða á annan hátt en þann að búa þeim heimili í nýju landi."



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum