Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þjónustusamningur um málefni fatlaðra á Eyjafjarðarsvæðinu

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu í dag þriggja ára samning um málefni fatlaðra á Eyjafjarðarsvæðinu. Samningsfjárhæð er rúmir 2,2 milljarðar króna.

Enn fremur var skrifað undir samkomulag til eflingar búsetu, dagþjónustu og dagvist geðfatlaðra á Akureyri. Sá samningur er til fjögurra ára og hljóðar upp á 95 milljónir króna.

„Með samningnum heldur Akureyrarkaupstaður áfram að veita fötluðum börnum og fullorðnum á starfssvæði sínu þá þjónustu sem er á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum um málefni fatlaðra“, sagði Magnús Stefánsson í ávarpi sínu við undirrituna í Rósenborg, gamla barnaskólanum fyrir ofan Akureyrarkirkju. „Samstarfið við Akureyrarkaupstað í þessum efnum hefur verið einkar farsælt og gjöfult og ég er þess sannfærður að svo muni verða áfram.“

Í þjónustusamningnum um málefni fatlaðra er unnið samkvæmt drögum að nýrri stefnu ráðuneytisins í málefnum þeirra sem búa við fötlun. Með samningnum ákveða félagsmálaráðuneytið og Akureyrarkaupstaður að halda áfram því samstarfi sem hófst í febrúar 1996 en síðasti samningur gilti til 31. desember 2006.

Meginmarkmið samningsins er að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna í heimabyggð og fella hana sem framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila, færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni. Það er gert með meiri skilvirkni, betri nýtingu fjármuna og með aukin þjónustugæði að leiðarljósi.

„Þetta er stór dagur í sögu þessarar þjónustu hér á Akureyri“, sagði Kristján Þór Júlíusson. „Sú reynsla og þekking, sem byggst hefur upp á þeim árum frá því að tilraunaverkefni um þjónustu fyrir fatlaða á Akureyri lauk, hefur verið með eindæmum góð. Ég tel að samvinnan um þetta verkefni við félagsmálaráðuneytið hafi verið til fyrirmyndar og einkennst af vilja til að nýta þá þekkingu sem til er í bænum. Vonandi geta aðrir notið.“

Við framkvæmd þjónustunnar skal náð markmiðum sem ráðuneytið hefur sett í samstarfi við hagsmunasamtök þeirra sem búa við fötlun og aðstandenda þeirra og er að finna í drögum að stefnu þess í málaflokknum. Markmiðin ná til í eftirfarandi átta málasviða og verði þeim fylgt eftir því sem við á:

  1. Þjónusta við börn 0–17 ára og fjölskyldur þeirra.
  2. Þjónusta vegna búsetu.
  3. Þjónusta vegna atvinnu og hæfingar.
  4. Stoðþjónusta við 18 ára og eldri.
  5. Staða og áhrif notenda.
  6. Mótun viðhorfa og almannatengsl.
  7. Gæðastarf.
  8. Þekkingarauður – mann- og skipulagsauður.

Samkomulagið sem skrifað var undir til eflingar búsetu, búsetu, dagþjónustu og dagvist geðfatlaðra á Akureyri felur í sér að Akureyrarkaupstaður leggur til fjórar leiguíbúðir fyrir geðfatlaða, starfsemi fyrir þá verður efld á ýmsum sviðum, meðal annars í Lautinni sem er dagvist geðfatlaðra rekin af Rauða kross deildinni á Akureyri í samvinnu við Geðverndarfélagið og Akureyrarkaupstað. Einnig verður lagður fram byggingarstyrkur til byggingar nýs áfangaheimilis/íbúða fyrir geðfatlaða á Akureyri. Heildarframlag félagsmálaráðuneytisins til þessa samkomulags er sem áður segir 95 milljónir króna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum