Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkveitingum til Byrgisins ses. hætt

Félagsmálaráðherra heldur blaðamannafund um Byrgið
Félagsmálaráðherra heldur blaðamannafund um Byrgið

Félagsmálaráðuneytið hefur ákveðið á grundvelli greinargerðar Ríkisendurskoðunar um fjármál sjálfseignarstofnunarinnar Byrgisins, sem tekin var saman að beiðni ráðuneytisins frá 16. nóvember sl. og afhent ráðuneytinu í dag, 15. janúar, að hætta styrkveitingum til stofnunarinnar.

Ríkisendurskoðun bendir á alvarlega vankanta á rekstri félagsins og meðferð fjármuna og hefur vísað málinu til embættis Ríkissaksóknara til frekari meðferðar.

Starfandi forstöðumanni Byrgisins var á fundi í ráðuneytinu í dag greint frá ákvörðun ráðuneytisins.

Félagsmálaráðuneytið hefur rætt við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Samhjálp um úrræði fyrir þann hóp sem hefur leitað til Byrgisins. Samhjálp, sem þegar rekur margvíslega starfsemi á þessu sviði, hefur lýst sig reiðubúna til samstarfs um verkefnið. Ákvörðun um hugsanlegan samning verður tekin í samráði við Ríkisendurskoðun.

Þá er landlæknisembættið reiðubúið að hafa milligöngu um að útvega á hverjum tíma lækna til að sinna almennum læknisstörfum sem umræddur hópur kann að þarfnast.

Þar sem starfsemi Byrgisins hefur farið fram í húsnæði Fasteigna ríkissjóðs á Efri-Brú í Grímsnesi hefur Fasteignum ríkissjóðs verið tilkynnt um niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og ákvörðun ráðuneytisins. Óskað hefur verið eftir því að Fasteignir ríkissjóðs fari þegar yfir gildandi afnotasamning stofnunarinnar við Byrgið ses. í ljósi þeirra aðstæðna sem upp hafa komið.

Að tillögu dómsmálaráðherra mun hópur á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis, undir forystu Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, skipaður fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, fjalla um málefni langt leiddra vímuefnaneytenda, m.a. með tilliti til fjölgunar úrræða fyrir þann hóp í framtíðinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum