Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins 2007

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 1/2007

Fjármálaráðuneytið hefur birt endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir árin 2006 til 2008 í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - vetrarskýrsla 2007. Fjallað er um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála 2006-2008 á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Þá eru breytingar frá októberspá ráðuneytisins útskýrðar. Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:

  • Á árinu 2006 tók loks að hægja á vexti þjóðarútgjalda, þ.e. neyslu og fjárfestingar. Hagvöxtur er áætlaður 2,5% síðastliðið ár. Árið 2007 er gert ráð fyrir miklum samdrætti í fjárfestingu við lok núverandi stóriðjuframkvæmda og nokkrum samdrætti einkaneyslu vegna veikingar á gengi krónunnar og auknu aðhaldi í efnahagsstjórn. Þrátt fyrir það er því spáð að aukinn útflutningur áls segi til sín og hagvöxtur verði 2,2% það ár. Vegna áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum er spáð 3,1% hagvexti árið 2008.
  • Áætlað er að viðskiptahallinn hafi verið 22,4% af landsframleiðslu árið 2006. Aukninguna frá fyrri áætlun má rekja til mun meiri halla á jöfnuði þáttatekna en áður var gert ráð fyrir. Spáð er að viðskiptahallinn dragist hratt saman í ár. Vegna tafa framkvæmda við stóriðju og virkjanir er áætlað að þær verði áfram nokkuð umfangsmiklar í ár, og að viðskiptahallinn verði um 14,5% af landsframleiðslu. Árið 2008 er reiknað með að framkvæmdirnar dragist enn frekar saman og að hallinn verði 7% af landsframleiðslu.
  • Aðhald í stjórn peningamála jókst mikið árið 2006. Nýjar tölur benda til að aðhald í stjórn ríkisfjármála hafi einnig aukist umtalsvert það ár. Hvort tveggja hefur áhrif til að draga úr spennu í efnahagslífinu.
  • Vegna hægari hagvaxtar árið 2006 minnkar mæld framleiðsluspenna það ár. Sökum hóflegs hagvaxtar er gert ráð fyrir spennan hverfi úr hagkerfinu í ár og að það haldist í jafnvægi árið 2008.
  • Áætlað er að atvinnuleysi hafi verið 1,3% af vinnuafli að meðaltali árið 2006 og aukist í 2% í ár þegar hægir á efnahagslífinu. Spáð er 3,3% atvinnuleysi á næsta ári.
  • Þótt verulega hafi dregið úr verðhækkun á fasteignamarkaði á nýliðnu ári leiddi lækkun á gengi krónunnar og aðrar kostnaðarhækkanir innanlands til þess að verðbólga varð 6,8% milli áranna 2005 og 2006. Spáð er að verðbólga nemi 3,8% að meðaltali árið 2007 og að hún verði komin á verðbólgumarkmið á síðara hluta ársins og verði 2,3% árið 2008.
  • Vegna skattabreytinga og niðurstöðu í samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins um kjaramál er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi aukist um 5,2% árið 2006. Vegna lokaáfanga í lækkun á tekjuskatti einstaklinga og hækkun persónuafsláttar ásamt lækkun skatta á matvæli í ár er spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 4,6% árið 2007 og 2,0% árið 2008.
  • Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða ástand á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, gengi krónunnar og frekari stóriðjuframkvæmdir.

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.

Fjármálaráðuneytinu, 16. janúar 2007.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum