Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2007 Matvælaráðuneytið

Ráðherrafundur í Berlín

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sótti hádegisverðarfund í Berlín með fjölmörgum matvælaráðherrum aðildarríkja ESB, annarra landa og fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins föstudaginn 19. janúar 2007. Ýmis mál bar á góma á fundi ráðherranna. Meðal annars var rætt um stöðu matvælagreina, heilbrigði afurða og samkeppnismál.

Ráðherrafundurinn var haldinn í tengslum við Grænu vikuna í Berlín, eina stærstu matvælasýningu heims, sem er árviss viðburður í borginni.

Þriðja árið í röð er Ísland heiðursland á upplýsinga- og kynningarbás um sjávarútveg og sjávarfang á sýningunni. Skipuðu Íslendingar þann sess 19. og 20. janúar. Þá sáu Árni Siemsen og samstarfsfólk hans af veitingastaðnum Sachs í Berlín um kynningu og matreiðslu á íslensku sjávarfangi. Fjöldi sýningargesta kynnti sér íslenskar sjávarafurðir og er óhætt að segja að þær hafi vakið mikla athygli, líkt og flest það sem kynnt er á básnum.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra var við setningu Grænu vikunnar og hitti gesti sjávarútvegsbássins þegar sýningin var opnuð. Hátíðin var sett 18. janúar og stendur til 29. janúar 2007.

Sendiráð Íslands í Berlín efndi til móttöku á Sachs 18. janúar þar sem íslenskar sjávarafurðir og landbúnaðarvörur voru í öndvegi. Þann dag hófust tveggja vikna íslenskir dagar á veitingastaðnum.

Græna vikan Berlin jan 07

Ólafur Davíðsson sendiherra Íslands í Þýsklandi, Dr. Matthias Keller framkvæmdastjóri Samtaka fiskiðnaðarins í Þýskalandi og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra við fiskborðið í sjávarútvegsbásnum á Grænu vikunni. Þar gat m.a. að líta tilkomumikinn seglfisk.

Sjávarútvegsráðuneytinu 22. janúar 2007

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum