Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda

Frá blaðamannafundi um innflytjendastefnu í félagsmálaráðuneytinu
Frá blaðamannafundi um innflytjendastefnu í félagsmálaráðuneytinu

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt stefnu um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi sem innflytjendaráð hefur unnið á undanförnum misserum.

Markmið stjórnvalda með stefnu í málefnum innflytjenda er að tryggja sem best að allir íbúar landsins njóti jafnra tækifæra og verði virkir þátttakendur í samfélaginu og á sem flestum sviðum mannlífsins.

 

Fyrsta heildræna stefnan

„Í fyrsta sinn hér á landi er lögð fram heildræn stefna stjórnvalda um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi“, sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra þegar hann kynnti stefnuna á blaðamannafundi í félagsmálaráðuneytinu í dag. „Hornsteinn hins íslenska réttarríkis er lýðræði, mannréttindi, samábyrgð og einstaklingsfrelsi. Þessi gildi eru leiðarljós í aðlögun innflytjenda að samfélaginu og samfélagsins að þeim öru breytingum sem fylgja alþjóðavæðingunni.“

Með hugtakinu innflytjandi í stefnunni er átt við þann sem fæddur er erlendis og hefur annað mál en íslensku að móðurmáli en sest að hér á landi til langframa. Í stefnunni eru sett fram markmið og tilgreindar leiðir að þeim hvað varðar íslenskunám fyrir fullorðna, miðlun og öflun upplýsinga, atvinnumál og atvinnuþátttöku, menntamál, heilbrigðisþjónustu og hlutverk sveitarfélaga þegar kemur að aðlögun innflytjenda. Fjallað er um það hlutverk stofnana á sviði almannaþjónustu að vernda lífsgæði íbúanna, jafnt á sviði heilbrigðis-, öryggis- og menntamála, velferðar og jafnra tækifæra.

   

Jafnrétti og mannréttindi

„Samfélagið allt þarf að vera í stakk búið til að bregðast við nýjum og breyttum aðstæðum á vinnumarkaði, í skólakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og annarri velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga“, sagði félagsmálaráðherra. „Ekki síst á tímum örrar alþjóðavæðingar er að mínu mati nauðsynlegt að gæta sérstaklega að því að mannréttindi séu virt í hvívetna og í engu slakað á þeim kröfum sem Íslendingar gera til sjálfs sín. Eins og fram kemur í stjórnarskrá lýðveldisins skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar hvívetna.“

Í stefnunni er lögð áhersla á að standa dyggilega vörð um íslenska tungu. Hún er sameign þjóðarinnar og geymir sögu hennar, menningu og sjálfsvitund. Hún er einnig tæki til félagslegra samskipta. Kunnátta í íslenskri tungu er lykillinn að íslensku samfélagi og getur ráðið úrslitum um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.

  

Markmið stefnunnar

Í stefnunni eru sett fram eftirtalin markmið og tilgreindar leiðir að þeim:

Íslenskunám fyrir fullorðna

  • Fullorðnir innflytjendur bæði á vinnumarkaði og utan hans eigi kost á að góðri íslenskukennslu.
  • Samfélagsfræðsla sé hluti af íslenskunámi fyrir innflytjendur.
  • Tryggja framboð á námsefni sem hæfir markmiðum námskrár.
  • Fram fari gæðamat og eftirlit með íslenskukennslu.

 

Miðlun og öflun upplýsinga

  • Innflytjendur hafi aðgang að upplýsingum um íslenskt samfélag.
  • Aðgengilegar upplýsingar um innflytjendamál á Íslandi.

 

Atvinnumál og atvinnuþátttaka

  • Erlendir ríkisborgarar sem hér dvelja og starfa hafi tilskilin dvalar- og atvinnuleyfi.
  • Útlendingar á innlendum vinnumarkaði njóti sömu kjara og réttinda og aðrir.
  • Virk atvinnuþátttaka á innlendum vinnumarkaði.
  • Lög um atvinnuréttindi útlendinga verði skýrari.
  • Miðlun upplýsinga á netinu fyrir atvinnurekendur sem og aðra.

 

Menntamál

Leik-, grunn- og framhaldsskóli

  • Nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla með annað móðurmál en íslensku njóti réttar síns til náms í íslensku sem öðru tungumáli.
  • Nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum með annað móðurmál en íslensku fái eftir því sem kostur er tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu.
  • Nemendum með annað móðurmál en íslensku í grunn- og framhaldsskólum verði auðvelduð próftaka á íslensku.
  • Foreldrum eða forráðamönnum af erlendum uppruna verði auðvelduð þátttaka í starfi sem tengist börnum og unglingum.
  • Skólanámskrár miði að því að undirbúa nemendur undir virka þátttöku í fjölmenningarlegu samfélagi.
  • Mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi.

Kennaramenntun

  • Framboð af vel menntuðum kennurum sem hafa lært að kenna íslensku sem annað tungumál verði aukið.

 

Heilbrigðisþjónustan

  • Innflytjendur hafi aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu hér á landi í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um almannatryggingar og lög um sjúklinga. Innflytjendur skulu njóta sömu þjónustu og Íslendingar.
  • Tungumálaerfiðleikar hindri ekki að upplýsingar berist milli einstaklings og heilbrigðisstarfsmanns.
  • Heilbrigðisstarfsfólk sé upplýst um ólíka menningarheima að því leyti sem það getur skipt máli gagnvart innflytjendum sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.
  • Upplýsingar um almannatryggingar og skipulag og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu séu innflytjendum aðgengilegar.
  • Hugað sé að sértækum heilsufarsvandamálum innflytjenda með það að markmiði að bæta heilsufar þeirra og vellíðan.
  • Heilbrigðiskerfið þarf að geta brugðist við sjúkdómum meðal innflytjenda og beita sértækum aðgerðum vegna innflytjenda þegar um er að ræða sjúkdóma sem fátíðir eru hér á landi og þarf að meðhöndla.

 

Hlutverk sveitarfélaga

Félagsþjónusta sveitarfélaga

  • Sveitarstjórnir tryggi að innflytjendur hafa sama aðgang að félagsþjónustu og aðrir íbúar sveitarfélagsins.
  • Sveitarstjórnir beiti tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir félagslega einangrun innflytjenda, bæði barna og fullorðinna.
  • Í þeim tilfellum að sveitarfélög setja sér forvarnastefnu er brýnt að hún nái einnig til barna og ungmenna af erlendum uppruna.
  • Sveitarfélög gegni virku hlutverki í hvers kyns fræðslu sem hafi að markmiði að sporna gegn fordómum.

Barnavernd

  • Framkvæmdaáætlun sveitarfélags í barnaverndarmálum taki sérstaklega mið af börnum er hafa ekki íslensku að móðurmáli.
  • Íþrótta- og tómstundamál.
  • Sveitarfélög leiti leiða til að tryggja þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu, bæði á þeirra eigin vegum svo og á vegum félagasamtaka sem njóta styrkja eða aðstöðu í sveitarfélaginu.

 

Málefni fatlaðra

  • Greining frávika í þroska barna er hafa ekki íslensku að móðurmáli.

 

Innflytjendaráð skipa:

Sæunn Stefánsdóttir, skipuð af félagsmálaráðherra, formaður,

Hildur Jónsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,

Kristín Jónsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðuneyti,

Vilborg Ingólfsdóttir, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti,

Þorsteinn Davíðsson, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneyti, og

Elsa Arnardóttir, fulltrúi Fjölmenningarsetursins, og

Tatjana Latinovic, án tilnefningar.

 

Skjal fyrir Acrobat ReaderStefna um aðlögun innflytjenda  



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum