Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innflutningur í janúar

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. febrúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands var vöruskiptahallinn í janúar neikvæður um 6,5 milljarða króna.

Hallinn lækkar um 2,5 milljarða króna milli mánaða en hafa ber í huga að innflutningstölur fyrir desembermánuð eru einnig bráðabirgðatölur.

Breytinguna má rekja til bæði inn- og útflutningshliðar. Vöruútflutningur var 20,3 milljarða króna virði og er það nokkur aukning eftir að hafa dregist saman lítillega síðustu þrjá mánuði. Aukninguna má einkum rekja til aukins álútflutnings. Innflutningur dróst hins vegar saman milli mánaða, og var flutt var inn fyrir 26,8 milljarða króna miðað við 28 milljarða í desember. Innflutningur án skipa og flugvéla hefur dregist saman um 4,4% síðustu tólf mánuði ef miðað er við þriggja mánaða staðvirt meðaltal.

Ef rýnt er í undirliði innflutnings sést að innflutningur dregst saman þrátt fyrir að innflutningur eldsneytis hafi aukist umtalsvert en sá liður er jafnan mjög sveiflukenndur milli mánaða. Innflutningur á matvælum dregst saman miðað við jólamánuðinn og talsvert hefur dregið úr innflutningi á hrá- og rekstrarvörum. Innflutningur fjárfestingarvara stendur í stað og innflutningur flutningatækja er á svipuðu róli og í desember.

Innflutningur neysluvara dregst hinsvegar lítillega saman í öllum flokkum. Hafa ber í huga að greining á undirliðum innflutnings er háð meiri óvissu en áður þar sem innflutningsgögnin byggjast á endurbættu tollflokkunarkerfi sem tók gildi um áramótin. Á alþjóðavísu er vinnu við samsvarandi breytingar á hagræna flokkunarkerfinu ekki lokið en innflutningstölur eru að jafnaði birtar á því formi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum