Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2007 Matvælaráðuneytið

Starfstengd íslenskukennsla fyrir erlent fiskvinnslufólk

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Starfstengd íslenskukennsla fyrir erlent fiskvinnslufólk

 

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra skrifaði í dag undir samning sjávarútvegsráðuneytisins við Fjölmenningarsetur á Ísafirði, sem felur í sér að Fjölmenningarsetrið, í samstarfi við Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, tekur að sér að annast undirbúning og skipulagningu starfstengds íslenskunámskeiðs fyrir erlenda starfsmenn í fiskvinnslu á Íslandi.

 

Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar sem starfar á vegum sjávarútvegsráðuneytisins hefur um tveggja áratuga skeið staðið fyrir 40 klst. grunnnámskeiðum fyrir starfsmenn í fiskvinnslu og samanstanda námskeiðin af allmörgum námsþáttum sem varða vinnsluna, s.s. meðferð afla, hreinlæti, gæðastjórnun, innra eftirlit, markaðs- og umhverfismál, en einnig þáttum eins og kjarasamningum og vinnumarkaðsmálum, líkamsbeitingu, öryggismálum, samstarfi á vinnustað, sjálfsstyrkingu og skyndihjálp. Ætlunin er að flétta íslenskukennslu inn í þessi grunnnámskeið Starfsfræðslunefndarinnar og nota námsefni hennar. Þessi námskeið koma þá í stað hefðbundinna grunnnámskeiða nefndarinnar.

 

Markmiðið með verkefninu eru að byggja upp orðaforða og þekkingu í hverjum námsþætti fyrir sig, auka færni starfsmanna í íslensku, auðvelda þeim þannig tjáskipti innan fyrirtækisins og dagleg störf og hvetja til enn frekara íslenskunáms. Einnig að auka starfsánægju sem aftur mun leiða til betra starfsumhverfis og meiri virðisauka í starfi.

 

Fjölmenningarsetur mun bera ábyrgð á og hafa umsjón með verkefninu, bæði hvað snertir aðlögun námsefnisins, þjálfun væntanlegra leiðbeinenda og námskeiðið sjálft. Setrið mun hafa náið samstarf við Alþjóðahúsið um verkefnið.

 

Byrjað verður á einu 80 klst. námskeiði fyrir starfsmenn Íslandssögu á Suðureyri og í framhaldi af því er ætlunin að halda sambærileg námskeið um allt land. Námsefni Starfsfræðslunefndarinnar verður lagað að þörfum erlendra starfsmanna í fiskvinnslu sem hafa litla íslenskukunnáttu, sett fram á myndrænan hátt og með margvíslegum verkefnum.

 

Að námskeiðinu loknu mun Fræðslumiðstöð Vestfjarða meta árangur og ávinning námskeiðsins, bæði fyrir fyrirtækið og starfsmennina.

 

Nýmæli þessa verkefnis felast einkum í því  að með því að aðlaga námsefnið sérstaklega að þörfum erlendra starfsmanna sitja þeir við sama borð og íslensk starfssystkini þeirra hvað það varðar að nýta sér þá fræðslu sem í boði er, jafnframt því að styrkja íslenskukunnáttu sína, sem er ein aðalforsenda þess að þeir verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

 

Í tilefni samningsins var haldinn kynningarfundur í Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði í dag. Við það tækifæri sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra m.a.: „Með þessu móti verður íslenskan kennd í gegnum starfið, en á vinnustaðnum hafa útlendingar betra tækifæri en annars staðar til að eiga samskipti við Íslendinga. Markmiðin eru skýr og ávinningurinn augljós. Þetta er því mikilvægt verkefni og til mikils að vinna fyrir alla sem að þessu koma og samfélagið í heild“.

 

skrifað undir íslenskukennslusamning feb 07

 Óðinn Gestsson framkvæmdarstjóri Íslandssögu, Elsa Arnardóttir forstöðumaður Fjölmenningarsetursins, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Arnar Sigurmundsson formaður Starfsfræðslunefndarinnar.

 Fleiri myndir frá kynningu og undirskrift



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum