Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagið er á ábyrgð okkar allra

JoninaBj0104
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra

NIÐURSTÖÐUR úr fjórðu skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, marka tímamót í umræðunni um loftslagsmál. Aldrei áður hafa vísindamenn talað jafn afdráttarlaust um að það séu athafnir mannsins sem valdi breytingum sem eru nú að verða á loftslaginu. Héðan í frá getur enginn vísað til vísindalegra vafaatriða því til stuðnings að ekkert verði aðhafst í loftslagsmálum.

Hlýnun andrúmsloftsins er hnattrænt vandamál og kallar á sameiginlegt átak ríkja heims. Nú er í gildi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum frá 2002. Eftir henni hefur verið unnið og öll helstu ákvæði hennar hafa verið framkvæmd. Á næstu dögum mun ég kynna endurskoðun á loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem mun einkennast af eindregnum vilja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Í síðustu viku var kynnt frumvarp til laga um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda sem eiga að tryggja að losun þessara lofttegunda frá stóriðju hér á landi verði ekki meiri en Kýótó-skuldbindingar Íslands heimila. Fari losun fyrirtækja yfir ákveðin mörk er stóriðjunni ætlað að afla sér losunarheimilda með fjármögnun skógræktar- eða landgræðsluverkefna eða kaup á losunarkvóta frá viðurkenndum erlendum aðila.

Loftslagsvandinn er orkuvandi heimsins

Við eigum að hafa það í huga að loftslagsvandinn stafar fyrst og fremst af ört vaxandi orkuþörf heimsins. Til þess að uppfylla orkuþörf jarðarbúa er daglega brennt gríðarlegu magni eldsneytis, olíu, kola og jarðargróðurs. Alþjóða orkumálastofnunin (IEA) hefur spáð því að orkuþörf muni aukast um rúm 50% milli áranna 2004 og 2030. Hlutur jarðefnaeldsneytis í þeirri hækkun verður 83% samkvæmt spánni. Sama stofnun hefur haldið því fram að hægt sé að minnka orkunotkun í heiminum um helming ef átak yrði gert í því beita nýjustu tækni við notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Íslendingar hafa ágætt tækifæri til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í slíkri byltingu. Mikil þekking er hér á landi um nýtingu jarðhita. Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna er rekinn hér á landi og nú nýlega stofnuðu íslensk fyrirtæki alþjóðlegt fjárfestingarfélag um sjálfbæra orkuvinnslu sem nefnt hefur verið Geysir Green Energy. Tilgangur félagsins er að fjárfesta fyrir allt að 68 milljarða króna í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu víðs vegar um heiminn með áherslu á nýtingu jarðvarma. Það er á þennan hátt, með hugviti og atorku, sem Íslendingar geta orðið þátttakendur í grænni alþjóðabyltingu.

Ísland stendur vel í loftslagsmálum, hvergi er hærra hlutfall endurnýjanlegra orkulinda. Hér hefur margt gott verið gert í samræmi við stefnu stjórnvalda frá 2002. Skýrsla IPCC brýnir okkur til dáða um að gera enn betur og við munum gera enn betur. Enginn einstaklingur, ekkert eitt ríki eða einn einstakur þáttur samfélagsgerðarinnar getur leyst loftslagsvandann. Þar dugir ekkert annað en samstaða og samstarf allra ríkja heimsins því lofthjúpur jarðar og ástand hans er á sameiginlegu forræði okkar allra.

Endurnýjanlegir orkugjafar í samgöngum

Sumum er tamt að gera því skóna að þáttur Íslendinga sé verulegur hluti af loftslagsvanda heimsins og vísa þar til álframleiðslu. Uppbygging stóriðju á Íslandi er vissulega umdeilt mál og við þurfum að gæta vel að því hvaða áhrif hún hefur á náttúru og samfélag. En því verður heldur ekki á móti mælt að losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu er nær hvergi minni en hér á landi. Losun á framleitt tonn af áli er hvergi lægra vegna hreinnar raforku en líka vegna þess að við setjum mjög strangar kröfur á losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnferlunum. Ekkert ríki býr við þá sérstöðu Íslands að um 70% orkuöflunar okkar kemur frá endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum. Afgangur orkunnar kemur frá innfluttu eldsneyti, sem er að mestu nýtt til samgangna á sjó og landi. Til lengri tíma eigum við að stefna að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi, nýta eldsneyti betur og draga úr orkusóun. Til þess eru ýmsar leiðir færar m.a. að draga úr heildarumfangi umferðar með auknum og aðgengilegum almenningssamgöngum ásamt því að stefna markvisst að aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Bætt tækni véla og vistvænna eldsneyti, svo sem metans og bíódísel, mun ryðja sér til rúms og það er verkefni stjórnvalda að undirbúa jarðveginn með efnahagslegum hvötum. Ýmsar leiðir eru þar mögulegar, nefni ég sparneytna bíla og tvíorkubíla með því að tengja bifreiðagjöld þeirra og aðra skatta við losun á gróðurhúsalofttegundum eins og nefnd á vegum stjórnvalda hefur nýlega lagt til.

Stóriðja og náttúruauðlindir

Hitt er síðan annað mál hversu langt við eigum að ganga í þá átt að nýta náttúrulegar auðlindir okkar, vatnsafl og jarðvarma til raforkuframleiðslu fyrir stóriðju. Með þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi og þingmenn þurfa að taka afstöðu til er skapaður farvegur sáttar um hvaða svæði eða náttúruverðmæti við ætlum að vernda og halda ósnortnum og hinum sem ætlunin verður að nýta til framleiðslu orku.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum