Hoppa yfir valmynd
1. mars 2007 Matvælaráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna í Noregi um sjávarútveg

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti:

Ávarp sjávarútvegsráðherra á alþjóðlegri ráðstefnu um sjávarútveg í Noregi.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra fjallaði um umhverfismerkingar sjávarafurða og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins í ræðu í dag á alþjóðlegri sjávarútvegsráðstefnu í Lilleström í Noregi, North Atlantic Seafood Forum. Ráðherra lagði áherslu á hve brýnt væri að nýta auðlindir sjávar með sjálfbærum hætti og gerði grein fyrir  afstöðu  Íslendinga. Greint var frá vinnu við undirbúning hugsanlegra umhverfismerkinga íslenskra sjávarafurða sem Fiskifélag Íslands stendur fyrir. Ennfremur voru tíundaðir helstu annmarkar yfirþjóðlegrar fiskveiðistjórnunar.

 

Í kjölfar erinda sinna sátu ræðumenn fyrir svörum í pallborði. Þar skiptust sjávarútvegsráðherra og Rupert Howes framkvæmdastjóri Marine Stewardship Council (MSC) m.a. á skoðunum um umhverfismerkingar. Þeir voru sammála um að takmarkið væri sjálfbær nýting fiskistofna en Einar Kristinn benti á að alls ekki væri sjálfgefið að vottun MSC væri eina rétta leiðin til vitnis um ágæti veiða á tilteknum fiskistofnum og sjálfbæra nýtingu þeirra. Fleiri kostir kæmu til greina m.a. þeir sem væru til skoðunar á Íslandi um þessar mundir. Hann undirstrikaði hið góða orðspor sem íslenskar sjávarafurðir njóta á alþjóðavettvangi og þá möguleika sem í því fælist. Ekki væri rétt að svo stöddu að útiloka eitt umfram annað, einokun á þessu sviði fremur en öðrum væri ekki vænleg til árangurs. Þá svöruðu ræðumenn spurningum úr sal og snerust þær sem beint var til ráðherra margar hverjar um umhverfismerkingarnar og hvert Ísland stefni í þeim efnum. Ljóst er að þennan þátt ber æ hærra í samskiptum Íslendinga við erlenda kaupendur íslenskra sjávarafurða og ljóst að íslenskur sjávarútvegur þarf að komast hið fyrsta að niðurstöðu um hvert beri að stefna í umhverfismerkingum.

 

Hátt í 400 gestir víðs vegar að úr heiminum sóttu ráðstefnuna og voru ræðumenn frá 7 löndum.

 

 Auk þessa flutti sjávarútvegsráðherra ávarp við formalega opnun starfsstöðvar Landsbankans í Osló í gær, þeirrar fyrstu á vegum bankans í Noregi og raunar á Norðurlöndum utan Íslands.

 

 Ræða ráðherra á ensku.

 

 

EKG ofl á ráðstefnu í Noregi 28 feb 07

 Rupert Howes frkvdstj. Marine Stewardship Council, Philip Chris Reid frá stofnun Sir Alister Hardy sem fjallaði um breytingar á hitastigi sjávar og hugsanlega áhrif þeirra á fiskveiðar, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og John Whitehead sem stjórnaði umræðunum.

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 28. febrúar 2007

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum