Hoppa yfir valmynd
1. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Undirritun samninga um þjónustugátt heilbrigðisupplýsinga og bólusetningaskrá sóttvarnalæknis

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Haraldur Briem sóttvarnalæknir og Garðar Már Birgisson framkvæmdastjóri TM Software Healthcare undirrituðu í dag samninga um bólusetningaskrá sóttvarnalæknis og Þjónustugátt heilbrigðisupplýsinga, Heklu. Samningarnir marka tímamót á sviði rafrænna samskipta í heilbrigðiskerfinu sem leiða munu til aukinnar hagkvæmi og aukins öryggis fyrir notendur heilbrigðisþjónustu.

Í bólusetningaskrá verður safnað á einn stað upplýsingum um bólusetningar sem framkvæmdar eru um land allt. Með skránni gefst sóttvarnalækni einstakt tækifæri til að fylgjast með og skipuleggja sóttvarnir í landinu. Skráin gefur upplýsingar um hlutfallslegan fjölda bólusettra einstaklinga við einstökum sjúkdómum og möguleika á að meta hættu á útbreiðslu sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir með bólusetningu. Skráin hefur líka notagildi fyrir almenning þar sem hægt verður að fletta upp bólusetningum einstaklings í einstökum heilsugæslustöðvum. Verkefnið um bólusetningaskrá er byggt á tilraunaverkefni sem framkvæmt var árið 2005.

Þjónustugátt heilbrigðisupplýsinga sem hlotið hefur nafnið Hekla, er almenn samskiptaleið fyrir heilsufarsupplýsingar og verður í byrjun notuð til samskipta með upplýsingar um bólusetningar og lyfseðla. Stefnt er að því að um helmingur allra lyfseðilssendinga verði orðnar rafrænar í lok þessa árs. Fyrsti áfangi verkefnisins nær yfir sendingar lyfseðla frá flestum heilsugæslustöðvum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins. Í framhaldi af því verður opnað fyrir sendingar frá öðrum læknum. Heildarfjöldi lyfseðla árið 2004 var tæplega 1.900 þúsund og er markmið verkefnisins að um helmingur allra lyfseðla verði sendur með rafrænum hætti við lok ársins 2007.

Með rafrænum sendingum eykst öryggi í meðhöndlun lyfseðla til muna með minni hættu á mistúlkun, faxsending lyfseðla mun heyra sögunni til og símalyfseðlum fækkar verulega. Fölsun verður einnig mun erfiðari eða nánast ómöguleg. Þjónusta batnar með því að flæði lyfseðla til apóteka verður jafnara og einnig að fjölnota lyfseðlar týnast ekki, heldur liggja á gáttinni og bíða næstu úttektar.

Hekla byggir á opnum stöðlum til samskipta með gögn og getur nýst til að flytja nánast allar upplýsingar á skeytaformi á milli tveggja aðila. Höfuðáherslan við uppbyggingu hefur verið lögð á öryggi í flutningi upplýsinga og hagkvæmni í rekstri. Með Heklu opnast leið fyrir heilbrigðisstofnanir og aðila í heilbrigðisþjónustu að skiptast á upplýsingum á öruggan hátt með aðferð sem getur skapað mikið hagræði. Mestu skiptir þó bætt þjónusta vegna aukins hraða í samskiptum með upplýsingar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum