Hoppa yfir valmynd
8. mars 2007 Matvælaráðuneytið

Fiskimálanefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar í Róm.

Fiskimálanefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar í Róm.

 

            Nú stendur yfir 27. fundur fiskimálanefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm. Nefndin, sem kemur saman annað hvert ár, er einn mikilvægast umræðu- og stefnumörkunarvettvangur í alþjóðlegu samstarfi, hvað varðar þau sjávarútvegsmál, sem hafa hnattræna vídd. Er nefndin því einn mikilvægasti vettvangurinn fyrir Ísland, til að eiga samstarf með öðrum ríkjum um sjávarútvegsmál.

 

            Í upphafi fundarins var rætt um árangur í framkvæmd viðmiðunarreglna FAO um ábyrgar fiskveiðar (FAO Code of Conduct for Responsible Fisheries). Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu flutti ávarp um helstu áherslur íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. Lagði hann m. a. áherslu á mikilvægi góðrar fiskveiðstjórnunar og svæðisbundinnar stjórnunar, vistkerfisnálgun í sjávarútvegi baráttuna gegn ólöglegum fiskveiðum (IUU) og ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Sagði hann einnig frá þróunarsamvinnu Íslendinga á svið sjávarútvegs.

 

            Fjallað var um skýrslu undirnefndar COFI fyrir viðskipti með fisk, en sú nefnd sinnir stefnumörkun í slíkum viðskiptum og fer þar fram mikilvægt samráð aðildarríkja FAO. Guðni Bragason fastafulltrúi hjá FAO í Róm flutti ávarp í umræðunum og lagði m. a. áherslu á mikilvægi frjálsrar verslunar með fisk fyrir efnahag og útflutningstekjur þróunarríkjanna og möguleika þeirra, til að vera virkir þátttakendur í hinum alþjóðlegu viðskiptum með fisk. Sagði fastafulltrúi einnig frá ráðstefnu um viðskipti með fisk, sem haldin var af háskólanum á Akureyri í byrjun febrúar með stuðningi utanríkisráðuneytisins og FAO.

            Á COFI-fundinum var einnig fjallað um enduruppbyggingu á sjávarútvegi og fiskeldi í þeim ríkjum, sem urðu illa úti af völdum flóðbylgjunnar miklu á Indlandshafi í desember 2005. Geir Oddsson, fiskimálafulltrúi hjá ÞSSÍ, sagði frá aðstoð íslenskra stjórnvalda við Sri Lanka í kjölfar hamfaranna. Ítrekaði hann boð íslenskra stjórnvalda um að miðla aðildarríkjum FAO af reynslu af og viðbrögðum við náttúruhamförum.  

Ávörpin eru á ensku.

Ávarp Stefáns Ásmundssonar

Ávarp Guðna Bragasonar

Ávarp Geirs Oddssonar

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum