Hoppa yfir valmynd
22. mars 2007 Matvælaráðuneytið

Auglýsing til sveitarstjórna um úthlutun byggðakvóta

Auglýsing til sveitarstjórna

um úthlutun byggðakvóta.

 

 

 

            Með tilkynningu þessari vill ráðuneytið gefa sveitarstjórnum kost á að sækja um byggðakvóta á grundvelli 10. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum. Sveitarstjórnir eru umsóknaraðilar fyrir byggðarlögin innan sveitarstjórnarumdæmanna og annast þær öll samskipti við ráðuneytið sem nauðsynleg eru vegna úthlutunarinnar. Umsóknarfrestur um byggðakvóta er til 4. apríl 2007. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.

Til greina við úthlutun byggðakvóta koma:

1.      Minni byggðarlög (viðmiðun er 1.500 íbúar) sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og sem háð eru veiðum og vinnslu á botnfiski. Skal sveitarstjórn gera ráðuneytinu ítarlega grein fyrir vanda byggðarlagsins sem talið er að rekja megi til samdráttar í sjávarútvegi á síðustu árum og fyrir þýðingu veiða og vinnslu botnfisks fyrir það byggðarlag.

2.      Byggðarlög sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í þeim. Sveitarstjórnir skulu leggja fram gögn sem sýna fram á að í tilteknu byggðarlagi hafi óvænt skerðing heildaraflaheimilda fiskiskipa sem gerð eru þaðan út og landað hafa þar afla, haft veruleg neikvæð áhrif á atvinnuástand í viðkomandi byggðarlagi.

Að fengnum umsóknum sveitarfélaga tekur ráðuneytið ákvörðun um hversu mikill byggðakvóti kemur í hlut einstakra byggðarlaga og tilkynnir sveitarstjórnum niðurstöðuna.  

 

Sjávarútvegsráðuneytið,  20. mars 2007.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum