Hoppa yfir valmynd
22. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp nefndar um endurskoðun jafnréttislaga í umsagnarferli

Frumvarp nefndar um endurskoðun laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er komið í opið umsagnarferli og birt á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins og samskiptatorgi þess.

Þar gefst öllum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um það frumvarp til nýrra jafnréttislaga sem nefndin vann undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara.

Félagsmálaráðherra skipaði nefndina sumarið 2006 í tilefni af því að 30 ár voru liðin frá því að jafnréttislög voru fyrst sett. Nefndina skipuðu auk Guðrúnar Erlendsdóttur Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, tilnefnd af Jafnréttisstofu, Bjarni Benediktsson alþingismaður, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Bjarnarson nemi, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokksins, Daníel Helgason húsasmiður, tilnefndur af þingflokki Frjálslynda flokksins, Mörður Árnason alþingismaður, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar, og Valgerður H. Bjarnadóttir ráðgjafi, tilnefnd af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum