Hoppa yfir valmynd
27. mars 2007 Dómsmálaráðuneytið

Greiðslur til sveitarfélaga vegna kosninga til Alþingis 12. maí

Ríkisstjórnin ákvað í dag hvernig greiða skuli úr ríkissjóði kostnað sem sveitarfélög bera af kosningum til Alþingis vegna starfa undirkjörstjórna og kjörstjórna og fyrir kjörgögn, áhöld o.fl. með hliðsjón af 14. gr. laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka o.fl.


Kostnaður hjá sveitarfélögum vegna kosninga er mismikill. Í því skyni að einfalda uppgjör milli ríkisins og sveitarfélaga verður notað einfalt greiðslulíkan, þannig að greidd verður tiltekin fjárhæð fyrir hvern kjósanda á kjörskrá. Einnig er áætlað að greiða fyrir sérhvern kjörstað, en með því móti er unnt að bæta fámennum sveitarfélögum kostnað þeirra.


Endanleg fjárhæð fyrir hvern kjósanda hefur verið ákveðin 430 krónur og greiðsla fyrir hvern kjörstað 300 þús. kr. eða alls um 133.2 m.kr., reiknað er með 217 þús. kjósendum og 132 kjörstöðum. Talið er að kostnaður sveitarfélaga vegna sveitarstjórnarkosninganna 2006 hafi numið tæpum 120 m. kr.  


Auglýsing um ofangreindar upphæðir verður birt í Stjórnartíðindum en sveitarfélögum verður greitt þegar þau leggja fram niðurstöðutölur með staðfestingu kjörstjórnar sveitarfélagsins um fjölda kjósenda og kjörstaða.

 

Reykjavík, 27. mars 2007.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum