Hoppa yfir valmynd
30. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Undirritun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra

Bein sjónvarpsútsending frá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna hófst klukkan 14.00 að íslenskum tíma í tilefni af undirritun nýs alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og viðauka hans.

Sýnt var frá dagskránni og undirrituninni á öllum sjónvarpsskjám á ráðstefnunni mótum framtíð á Nordica hotel.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tilkynnti við upphaf ráðstefnunnar í gær að utanríkisráðuneytið hefði verið beðið um að undirrita samninginn og valkvæða viðbótarbókun fyrir Íslands hönd. Samningurinn feli í sér „raunverulegar réttarbætur“ þar sem hann skýri réttarstöðu fatlaðra og kveði skýrt á um rétt þeirra til að standa jafnfætis öðrum í samfélaginu.

Til máls tóku forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, aðstoðarframkvæmdastjóri, forstöðumaður mannréttindaskrifstofu, fulltrúar Mexíkó, Ekvadors og Nýja-Sjálands auk talsmanns hagsmunasamtaka.

Um það bil klukkan 15.10 lagði aðstoðarframkvæmdastjóri lögfræðiskrifstofu fram samninginn og viðbótarbókunina til undirritunar og staðfestingar. Erindrekar 81 lands, þar á meðal Íslands, undirrituðu samninginn. Harald Aspelund, varafastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, undirritaði samninginn og viðaukann fyrir Íslands hönd klukkan 16.25.

Að undirritun lokinni var fundi frestað og efnt til hátíðardagskrár um kvöldið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum