Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vill skoða kosti lagasetningar um greiðsluaðlögun

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra á ársfundi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra á ársfundi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna

Í ávarpi sínu á ársfundi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna í morgun sagðist Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vilja skoða kosti þess að setja sérstaka löggjöf um úrræði vegna greiðsluerfiðleika. Mikilvægt sé að tryggja skuldara samningsrétt, rétt til að halda eftir ákveðnu lágmarki tekna til að geta séð sér farborða og heimilisrétt sem tryggir húsnæði sem uppfyllir lágmarkskröfur.

„Skuldaranum er gert kleift að standa í skilum og hjálpað við að komast úr erfiðleikunum, oftast án þess að til gjaldþrots komi“, sagði Magnús Stefánsson. „Fyrir einstaklinginn og fjölskyldu hans skiptir þó mestu máli að skuldaaðlögun getur komið í veg fyrir upplausn heimilanna og þá óhamingju sem því fylgir. Fyrir lánardrottna aukast líkur á því að þeir fái að minnsta kosti hluta skuldanna greiddan. Í raun er þetta því beggja hagur. Samfélagið hagnast einnig þar sem með því að opna einstaklingum leið út úr verulegum greiðsluerfiðleikum má spara útgjöld fyrir ríkið og sveitarfélögin.“

Félagsmálaráðherra ræddi hugmyndir þessa efnis við viðskiptaráðherra sem skipaði nefnd 5. mars síðastliðinn til að vinna drög að frumvarpi til sérstakra laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt skipunarbréfi á nefndin að hafa hliðsjón af norrænni löggjöf og reynslu af lagaframkvæmd um sambærileg úrræði.

Jafnframt lýsti félagsmálaráðherra því yfir að hann vildi beita sér fyrir áframhaldandi starfsemi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum