Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 7/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. maí 2007

í máli nr. 7/2007:

Jarðvélar ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi, dagsettu 1. maí 2007, kæra Jarðvélar ehf. höfnun Vegagerðarinnar á kæranda sem bjóðanda í útboði Vegagerðarinnar, auðkennt „Hringvegur, (1) Hringtorg við Þingvallaveg (36)“. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1.                        Að samningsgerð verði stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

2.                        Að kærunefnd úrskurði að tilboði kæranda í útboðinu skuli tekið.

3.                        Til vara, að nefndin úrskurði útboðið ógilt og að fara skuli fram annað útboð án tafar.

Jafnframt er óskað eftir áliti kærunefndar á hugsanlegri skaðabótaábyrgð kærða gagnvart kæranda. Í öllum tilfellum er þess krafist að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kröfur sínar uppi fyrir nefndinni.

Kærði krefst þess aðallega að kæru kæranda verði vísað frá en til vara er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Krafa kæranda þykir að því leyti til tæk til efnismeðferðar. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

Um meðferð kærunnar fyrir kærunefnd fer eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 106. gr. laga nr. 84/2007, þar sem hin nýju lög tóku gildi hinn 16. apríl 2007. Um efnishlið málsins gilda ákvæði eldri laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, sbr. 105. gr. laga nr. 84/2007.

 

I.

Hinn 19. mars 2007 auglýsti Vegagerðin útboð auðkennt með nafninu „Hringvegur, (1) Hringtorg við Þingvallaveg (36)“. Samkvæmt skilmálum útboðsins bar bjóðendum að skila tilboðum í útboðið til Vegagerðarinnar í seinasta lagi kl. 14:00, þriðjudaginn 3. apríl 2007. Tilboð yrðu opnuð kl. 14:15 sama dag. Fjórir aðilar buðu í verkið, þ.á m. kærandi. Reyndist kærandi lægstbjóðandi við opnun tilboða en hann bauð kr. 82.577.760 í verkið.

Í skilmálum útboðsins, gr. 2.2.2., kemur fram að bjóðendur skulu innan 7 daga frá opnun tilboða leggja fram skriflega yfirlýsingu frá innheimtuaðilum ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að bjóðandi hafi greitt opinber gjöld undanfarin tvö ár og sé ekki í vanskilum með slík gjöld. Þá skulu bjóðendur jafnframt leggja fram sams konar yfirlýsingu frá lífeyrissjóði starfsmanna bjóðenda.

Óskað var eftir þessum gögnum frá kæranda og aflaði hann yfirlýsinga frá Tollstjóranum í Reykjavík, dags. 18. apríl 2007, og Gildi lífeyrissjóði, dags. 23. apríl 2007. Í yfirlýsingu Tollstjórans í Reykjavík kom fram að kærandi væri ekki í vanskilum með opinber gjöld. Jafnframt kom þar fram að skuld kæranda við ríkissjóð næmi samtals 36.933.781, aðallega vegna vangreiddra staðgreiðslu- og tryggingargjalda, eða kr. 36.284.961. Var tekið fram að sú skuld væri vegna janúar, febrúar og mars 2007 en að samningur væri í gildi vegna janúarmánaðar sem kærandi hefði staðið við. Í yfirlýsingu Gildis lífeyrissjóðs kom fram að kærandi væri í skilum við lífeyrissjóðinn á iðgjöldum til hans. Þá sagði að kærandi hefði síðast greitt fyrir desember 2006 og að hann skuldaði enn janúar og febrúar 2007.

Á grundvelli framangreindra yfirlýsinga sendi Jóhann J. Bergmann, starfsmaður kæranda tölvupóst, dags. 26. apríl 2007, þar sem fram kom að hagdeild Vegagerðarinnar hefði yfirfarið gögn um fjárhagsstöðu kæranda og hafnað honum sem bjóðanda, á þeirri forsendu að opinber gjöld og lífeyrissjóður væru í vanskilum. Þar með hafnaði Vegagerðin kæranda um frekari þátttöku í útboðinu.

Í tilefni meðferðar kæru þessarar fyrir kærunefnd leitaði kærði til Tollstjórans í Reykjavík og Gildis lífeyrissjóðs og aflaði frá þeim nýrra staðfestinga. Í yfirlýsingu tollstjóra, dags. 2. maí 2007, kemur fram að kærandi sé í vanskilum með opinber gjöld og að vanskil nemi kr. 26.800.530. Í yfirlýsingu Gildis lífeyrissjóðs, dags. 2. maí 2007, kemur fram að kærandi sé í vanskilum við lífeyrissjóðinn á iðgjöldum til hans og viðkomandi stéttarfélags. Í hvorugri þessara yfirlýsinga eru skýrðar þær breytingar sem virðast hafa orðið á vanskilastöðu kæranda milli þessara tveggja yfirlýsinga.

Í kjölfar móttöku gagna málsins sendi kærunefnd beiðnir, dags. 10. maí 2007, um frekari skýringar á yfirlýsingum Tollstjórans í Reykjavík og Gildis lífeyrissjóðs. Var það gert á þeim grundvelli að kærandi og kærði leggja mismunandi skilning í þessar yfirlýsingar. Í svarbréfi Tollstjórans í Reykjavík, dags. 10. maí 2007, kom fram að í yfirlýsingu, dags. 18. apríl 2007, hefði láðst að taka út orðið „ekki“. Hið rétta væri að kærandi hefði verið í vanskilum þegar viðkomandi yfirlýsing var gefin út. Í svarbréfinu sagði jafnframt að samningur hefði verið gerður við kæranda, dags. 3. mars 2007, þar sem samið var um vanskil vegna desember og janúar og vegna virðisaukaskatts fyrir árið 2006. Þá var greint frá því að ekki hefði verið gerður samningur vegna febrúar og mars 2007 og að dráttarvextir reiknuðust af ógreiddum fjárhæðum þrátt fyrir greiðsluáætlun. Í svarbréfi Gildis lífeyrissjóðs, dags. 10. mars 2007 (móttekin 10. maí 2007), kom fram að í yfirlýsingu, dags. 23. apríl 2007, hefði átt að standa að kærandi væri ekki í skilum með greiðslur til lífeyrissjóðs á iðgjöldum til hans og viðkomandi stéttarfélags, en vegna mistaka hefði kærandi verið sagður í skilum. Dráttarvextir reiknast af ógreiddum fjárhæðum þar til gjöldin komast aftur í skil.

Kærandi hefur ekki fellt sig við framangreinda höfnun kærða. Varðar mál þetta ágreining aðila um réttmæti höfnunar Vegagerðarinnar á grundvelli vanskila með opinber gjöld og greiðslur til lífeyrissjóðs.

 

II.

Kærandi byggir á því að höfnun kærða á honum sem bjóðanda hafi verið ólögmæt þar sem hann hafi ekki verið í vanskilum með opinber gjöld eða iðgjöld til lífeyrissjóðs þegar höfnun átti sér stað.

Kærandi byggir á því að í hugtakið vanskil, eins og það birtist í e-lið 28. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, eigi að leggja hinn almenna skilning að vanskil verði á skuld þegar greiðslur vegna hennar eru ekki inntar af hendi á tilskildum tíma, miðað við gjald- og eindaga reikninga, auk samninga sem kunna að verða gerðir um þær, enda sé ekki sérstaklega skýrt í viðkomandi lögum eða lögskýringargögnum hvaða merkingu hugtakið eigi að hafa.

Kærandi bendir á að í yfirlýsingu Tollstjórans í Reykjavík, dags. 18. apríl 2007, sé það tekið fram að kærandi sé ekki vanskilum með opinber gjöld. Jafnframt bendir hann á að í yfirlýsingu Gildis lífeyrissjóðs, dags. 23. apríl 2007, sé því lýst yfir að kærandi sé í skilum með iðgjöld til lífeyrissjóðsins og viðkomandi stéttarfélags. Kærandi áréttar að rökstuðningur kærða byggi eingöngu á vanskilum hvað varðar opinber gjöld og greiðslur í lífeyrissjóði. Telur hann að ákvörðun kærða byggist á bersýnilega röngum forsendum og sé röng að efni til, þar sem kærandi hafi sýnt fram á það með framlögðum gögnum að umrædd gjöld séu ekki í vanskilum.

Kærandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup þá skuli við val á bjóðanda gengið út frá hagstæðasta boði. Hagstæðasta tilboð er það boð sem er lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægir þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum. Telur kærandi að ákvörðun kærða gangi gegn meginreglum laganna um opinber útboð um að taka skuli hagstæðasta tilboðinu.

 

III.

Kærði byggir á því að kröfu kæranda beri að hafna þar sem kærandi hafi með engum hætti leitt líkur að því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup þegar ákveðið var að hafna tilboði kæranda í verkið.

Kærði byggir réttmæti höfnunar á e-lið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/2001 þar sem fram kemur að kaupanda sé skylt á hvaða stigi útboðs sem er að vísa frá bjóðanda sem er í vanskilum með opinber gjöld, lífeyrissjóð eða sambærileg lögákveðin gjöld. Telur kærði að þær yfirlýsingar sem liggja fyrir í málinu sýni að um vanskil hafi verið að ræða þegar hin kærða ákvörðun var tekin, ásamt þeim frekari gögnum sem kærði leggur fram þessu til stuðnings.

Kærði byggir á því að um vanskil sé að ræða þegar greiðslur séu ekki inntar af hendi á tilskildum tíma. Telur hann engu breyta í því sambandi hvort taka eigi tillit til samninga sem kunna að hafa verið gerðir um uppgjör á vanskilum. Er á það bent að ekki komi fram í gögnum kæranda að samið hafi verið sérstaklega um vanskil, að því frátöldu að komist hafi verið að samkomulagi við Tollstjórann í Reykjavík um greiðslu opinberra gjalda í janúar 2007, en ekki febrúar og mars. Ekki virðist hafa verið samið um önnur vanskil og telur kærandi að þó svo hefði verið þá breyti það engu um þá staðreynd að kærandi sé enn í vanskilum með opinber gjöld og að hann hafi verið ótvírætt í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Er á það bent að heimildir til veitingar gjaldfrests á þessum gjöldum séu takmarkaðar.

Kærði byggir jafnframt á því að gögnum sem aflað var eftir að hin kærða ákvörðun var tekin bendi jafnframt til þess að kærandi hafi verið í vanskilum með opinber gjöld og iðgjöld í lífeyrissjóð. Er hér vísað til yfirlýsingar Tollstjórans í Reykjavík, dags. 2. maí 2007. Telur kærði á grundvelli þessa að lög um opinber innkaup leggi bann við samningsgerð við kæranda og fráleitt að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að höfnun á tilboði kæranda hafi falið í sér brot gegn lögum um opinber innkaup. Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu Tollstjórans í Reykjavík er kærandi enn í vanskilum og því óheimilt að ganga til samninga við hann.

Kærði áréttar að um meðferð kærunnar gildi XIV. kafli laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

 

V.

Á grundvelli e-liðar 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/2001 er heimilt að hafna bjóðanda í verk sé það staðreynt að hann sé í vanskilum með opinber gjöld og iðgjöld í lífeyrissjóð. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort kærandi hafi verið í slíkum vanskilum á því tímamarki er honum var hafnað sem bjóðanda. Leggja aðilar m.a. misjafnan skilning í yfirlýsingar Tollstjórans í Reykjavík, dags. 18. apríl 2007, og Gildis lífeyrissjóðs, dags. 23. apríl 2007. Í báðum þessum yfirlýsingum, sem þegar hafa verið raktar, er efnislega tekið fram að kærandi sé í skilum með viðkomandi gjöld en jafnframt tekið fram að hann sé í skuld við viðkomandi aðila. Kærandi leggur áherslu á yfirlýsingu þessara aðila um skil og kærði leggur áherslu á upplýsingar sem þar er að finna um skuldastöðu.

Um vanskil er að ræða þegar skuld er ekki greidd á réttum stað eða á réttum tíma, s.s. samkvæmt samningi eða lögum. Óumdeilt er að kærandi greiddi ekki opinber gjöld vegna janúar, febrúar og marsmánaðar 2007 á réttum tíma og jafnframt liggur fyrir að hann greiddi ekki iðgjöld til lífeyrissjóðs vegna janúar og febrúar 2007 á réttum tíma. Kærði byggir á því að samkomulag hafi verið gert um uppgjör vanskila sem geri það að verkum að ekki geti lengur verið um vanskil að ræða. Einungis liggur fyrir að gert hafi verið einhvers konar samkomulag vegna vanskila opinberra gjalda vegna janúarmánaðar 2007. Standa þá eftir vanskil vegna febrúar og marsmánaðar 2007 vegna opinberra gjalda og janúar og febrúar 2007 vegna iðgjalda til lífeyrissjóðs.

Þá liggur fyrir að Tollstjórinn í Reykjavík hefur með bréfi, dags. 10. maí 2007, lýst því yfir að um mistök hafi verið að ræða þegar því var lýst yfir í bréfi, dags. 18. apríl 2007, að kærandi væri ekki í vanskilum með opinber gjöld. Hið rétta sé að um vanskil hafi verið að ræða á því tímamarki. Gildi lífeyrissjóður hefur lýst því yfir með bréfi, dags. 10. mars 2007 (á augljóslega að vera 10. maí 2007 og móttekið þann dag), að kærandi hafi verið í vanskilum á því tímamarki sem yfirlýsingin var gefin og að yfirlýsing, dags. 23. apríl 2007, sé röng.

Með vísan til framanritaðs þá verður að álykta sem svo að kærandi hafi verið í vanskilum með opinber gjöld og iðgjöld til lífeyrissjóðs þegar kærði hafnaði honum sem bjóðanda með tölvupósti, dags. 26. apríl 2007. Veitir e-liður 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/2001 við þessar aðstæður heimild til þess að hafna kæranda sem bjóðanda í verkið. Er af þessum sökum óhjákvæmilegt að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í útboði auðkenndu „Hringvegur, (1) Hringtorg við Þingvallaveg (36)“.

 

Reykjavík, 11. maí 2007

                                                  Páll Sigurðsson

   Sigfús Jónsson

   Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 11. maí 2007.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn