Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Sérfræðinganefnd skipuð til að kanna mögulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisráðherra hefur skipað sérfræðinganefnd til að kanna möguleika á samdrætti í nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Nefndin er skipuð í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum sem ríkisstjórnin samþykkti 15. febrúar sl.

Nefndin á að fjalla um möguleika á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í eftirfarandi geirum: orkuframleiðslu; samgöngum og eldsneytisnotkun; iðnaðarferlum; sjávarútvegi; landbúnaði; og meðferð úrgangs. Einnig skal farið yfir möguleika á bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og hugsanlega í jarðlögum eða undir hafsbotni. Nefndinni er falið að meta kosti og hagkvæmni helstu aðgerða sem nefndar eru í stefnu stjórnvalda til að minnka verulega nettólosun gróðurhúsalofttegunda, auk annarra aðgerða sem til greina kæmu í sama tilgangi. Nefndin skal einkum skoða möguleika á aðgerðum sem hafa áhrif til skemmri tíma, þ.e. á næsta áratug eða svo, en einnig fjalla um möguleika á tæknilegum lausnum sem gætu haft umtalsverð áhrif síðar. Nefndin skal hafa til hliðsjónar eldsneytisspá Orkustofnunar og losunarspá Umhverfisstofnunar og vinnu sem gerð hefur verið á vegum stjórnvalda á þessu sviði, s.s. hjá Vettvangi um vistvænt eldsneyti. Reyna skal að bera stöðu Íslands saman við stöðu annarra ríkja varðandi möguleika á minnkun losunar og hversu loftslagsvænir helstu þættir atvinnulífsins og samfélagsins teljast.

Nefndin skal skila skýrslu til umhverfisráðherra fyrir 31. mars 2008, þar sem fram koma möguleikar á að draga úr losun eða auka bindingu í einstökum geirum, auk mats á kostnaði og hagkvæmni einstakra leiða. Að þeim tíma loknum verður tekin ákvörðun um hugsanlegt áframhald vinnu nefndarinnar.

Í nefndinni sitja:

Brynhildur Davíðsdóttir, dósent við Háskóla Íslands í umhverfis- og auðlindafræðum, formaður.

Ágústa Loftsdóttir, starfsmaður Vettvangs um vistvænt eldsneyti.

Birna Hallsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Bryndís Skúladóttir, efnaverkfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins.

Daði Már Kristófersson, hagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands.

Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva.

Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni.

Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins.

Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands.Hafa samband

Ábending / fyrirspurn