Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2007 Innviðaráðuneytið

Nýir fulltrúar stjórnvalda í stjórn Iceland Naturally í Bandaríkjunum

Samgönguráðherra hefur skipað Skúla Helgason, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, formann Iceland Naturally. Hann tekur við af Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspósts.

Ákveðið hefur verið að samgönguráðherra, forsætisráðherra og utanríkisráðherra fækki fulltrúum sínum í stjórninni úr tveimur í einn hver og verða Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, og Guðmundur Steingrímsson, tónlistarmaður og pistlahöfundur, fulltrúar forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis.

Í tengslum við landafundahátíðina vestanhafs árið 2000 gerðu íslensk stjórnvöld og nokkur íslensk fyrirtæki með hagsmuni á mörkuðum í Norður-Ameríku, með sér samkomulag um að styrkja ímynd Íslands og auka áhuga á íslenskri ferðaþjónustu og vörum. Samkomulagið kallaðist Iceland Naturally og gilti fyrst í fimm ár en var síðan framlengt til ársloka 2008.

Fyrirtækin sem aðild eiga að samkomulaginu eru Icelandair, Icelandic USA, Glitnir, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Egill Skallagrímsson, 66° Norður, Bláa lónið og Reyka Vodka auk Bændasamtaka Íslands. Fleiri fyrirtæki eru að kanna aðild.

Ríkissjóður leggur árlega fram 700.000 bandaríkjadali eða 52 milljónir króna í ár af fjárlagalið samgönguráðuneytis, en mótframlag fyrirtækjanna skiptist að mestu samkvæmt ákveðnum samningi. Nú eiga fleiri fyrirtæki aðild en fram kemur í samningnum auk annarra breytinga sem orðið hafa, meðal annars á fjölda fulltrúa í stjórn. Samgönguráðuneytið hefur stýrt verkefninu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Verkefninu er stýrt frá skrifstofu Ferðamálastofu í New York í samstarfi við viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í sömu borg.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum