Hoppa yfir valmynd
1. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins 2007

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 21/2007

Fjármálaráðuneytið hefur birt nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2007 til 2009 auk framreikninga til ársins 2012. Nýja þjóðhagsspá er að finna í skýrslu fjármálaráðuneytisins Þjóðarbúskapurinn - haustskýrsla 2007 þar sem birtar eru greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2007-2009, meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins.

Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:

  • Þrátt fyrir mikið hagstjórnaraðhald hafa innlend eftirspurn og ójafnvægi í efnahagslífinu reynst meiri í uppsveiflunni en reiknað var með. Að stórum hluta má rekja þá útkomu til breytinga á hagkerfinu í tengslum við alþjóðavæðingu þess. Um leið er hagkerfið orðið viðkvæmara fyrir þróun á alþjóðlegum mörkuðum.
  • Umsvif í efnahagslífinu voru meiri árið 2006 en fyrri tölur gáfu til kynna, en hagvöxtur nam 4,2% í stað 2,6%. Samneysla sveitarfélaga og fjár­munamyndun jukust meira en áður var talið en einkaneysla minna.
  • Árið 2007 er áætlað að þjóðarútgjöld dragist saman um 5,2% vegna loka mikilla stóriðjuframkvæmda. Samt er reiknað með áframhaldandi vexti einkaneyslu og annarrar fjárfestingar en í stóriðju. Spáð er að hagvöxtur verði 0,7% á árinu í krafti stóraukins útflutnings áls og samdráttar innflutnings.
  • Áframhaldandi viðsnúningur í utanríkisverslun leiðir til þess að hagvöxtur verður 1,2% árið 2008 þrátt fyrir samdrátt í útflutningi sjávarafurða, einkaneyslu og fjárfestingu. Árið 2009 er gert ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í einkaneyslu en að fjármunamyndun taki að aukast á ný og vöruskiptahallinn haldi áfram að dragast saman og að hagvöxtur verði 2,1% það ár.
  • Viðskiptahalli sem samkvæmt bráðabirgðatölum nam 25,7% af lands­framleiðslu árið 2006 er áætlaður 15,2% af landsframleiðslu árið 2007. Spáð er að viðskiptahallinn dragist hratt saman á næstu árum og verði 8,8% af landsframleiðslu árið 2008 og 7,6% árið 2009.
  • Áætlað er að spenna á vinnumarkaði verði í hámarki í ár en að slaki myndist á næstu árum. Atvinnuleysi, sem var að meðaltali 1,3% af vinnuafli árið 2006, hefur farið minnkandi og reiknað er með að það verði að meðaltali 1,1% árið 2007 en taki að aukast á næstu árum í kjölfar minnkandi innlendrar eftirspurnar og verði 2,9% af vinnuafli árið 2008 og 3,6% árið 2009.
  • Framleiðsluspenna í hagkerfinu var 3,5% af framleiðslugetu árið 2006 en reiknað með að spennan minnki í ár. Spáð er að árið 2008 verði hagkerfið komið í jafnvægi og að nokkur slaki myndist árið 2009.
  • Verðbólga árið 2006 jókst í 6,8% vegna gengislækkunar krónunnar, mikils eftirspurnarþrýstings og spennu á vinnumarkaði. Dregið hefur úr verðbólgu í ár og er áætlað að hún verði 4,5% að meðaltali. Nokkur verðbólguþrýstingur er talinn verða enn til staðar árið 2008 en að verðbólga minnki í 3,3%. Spáð er að verðbólga verði komin á 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands á fyrri hluta ársins 2009 en verði 2,8% að meðaltali á árinu.
  • Í framreikningum fyrir árin 2010-2012 er reiknað með örlitlu minni hagvexti á tímabilinu en í síðustu spá ráðuneytisins, eða um 2,4% að meðaltali; að verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði og að viðskiptahallinn nálgist 5% af landsframleiðslu í lok tímabilsins.
  • Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða frekari stóriðjuframkvæmdir, ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, gengi krónunnar og endurnýjun kjarasamninga á næsta ári.

Þjóðarbúskapurinn - haustskýrsla 2007

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum