Hoppa yfir valmynd
29. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýr tvísköttunarsamningur við Bandaríkin

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Undirritaður hefur verið nýr tvísköttunarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna.

Gildandi tvísköttunarsamningur var undirritaður árið 1975 og tók hann gildi í ársbyrjun 1976. Nýi samningurinn endurspeglar þær breytingar sem hafa átt sér stað í stefnu og áherslum beggja þjóða á sviði tvísköttunarmála síðastliðna þrjá áratugi.

Nýr samningur tekur einungis til tekjuskatta en gildandi samningur nær bæði til tekju- og eignarskatta. Ástæðan er sú að í dag leggur hvorugt ríkið á eignarskatta. Þá er tekinn upp afdráttarskattur á tilteknar tegundir þóknana sem ekki er að finna í eldri samningi. Þessi breyting er í takt við stefnu íslenskra stjórnvalda í tvísköttunarmálum sem hefur verið í gildi frá árinu 1999. Jafnframt eru í nýja samningnum tekin af öll tvímæli um að lífeyrissjóðir njóti ívilnana samningsins, en ákvæði eldri samnings varðandi lífeyrissjóði voru mjög óljós.

Gerð er sú breyting að tekin eru upp sérstök takmarkandi ákvæði (Limitations on Benefits) sem ætlað er að tryggja að einungis þeir skattaðilar sem uppfylla ákvæði þeirra njóti ívilnana samningsins. Sambærileg ákvæði var ekki að finna í samningnum frá 1975 en í dag er það ófrávíkjanleg krafa af hálfu Bandaríkjanna að slík ákvæði séu hluti af nýjum og endurskoðuðum samningum. Einnig er að finna í samningnum ákvæði um sérstakan 5% branch profit skatt á hagnað útibúa í Bandaríkjunum en þessi skattur er hluti af bandarískum skattalögum.

Í nýja samningnum er að finna sólarlagsákvæði gagnvart eldri samningi þar sem skattaaðila, ef hann á rétt til meiri ávinnings skv. eldri samningi en þeim nýja, er heimilt að óska eftir því að fyrri samningi verði beitt í 12 mánuði frá þeim degi þegar ákvæðum nýs samnings myndi annars hafa verið beitt.

Framundan er fullgildingarferli samningsins sem er afar ólíkt milli ríkjanna. Á Íslandi er samningurinn lagður fyrir ríkisstjórn til samþykktar og síðan birtur í Stjórnartíðindum eftir að löndin hafa skipst á fullgildingarskjölum. Í Bandaríkjunum er samningurinn aftur á móti lagður fyrir sérstaka þingnefnd (Foreign Relation Committee) til umræðu og samþykktar áður en hann er formlega fullgiltur. Ekki liggur fyrir hvenær næsti fundur þingnefndarinnar verður haldinn, en af hálfu Bandaríkjanna er vonast til að af honum geti orðið á fyrri árshelmingi 2008.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum